Valskonur byrjuðu leikinn af krafti og það varð fljótt ljóst í hvað stefndi, en gestirnir voru komnir með fimm marka forskot þegar fyrri hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður. Selfyssingar náðu þó að stoppa í götin fyrir hálfleikshléið og munurinn hélst í fimm mörkum, staðan 10-15 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Selfyssingar héldu í við Valskonur framan af í síðari hálfleik, en gestirnir náðu flugi á ný þegar tæpar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Gestirnir náðu tíu marka forskoti í fyrsta skipti í leiknum í stöðunni 14-24 og liðið vann að lokum öruggan 14 marka sigur, 19-33.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í liði Vals með 11 mörk úr 13 skotum. Markverðir liðsins áttu einnig góðan dag og vörðu samtals 17 bolta og enduðu með rúmlega 47 prósent hlutfallsmarkvörslu. Í liði Selfyssinga voru þær Roberta Stropé og Tinna Soffí Traustadóttir atkvæðamestar með fimm mörk hvor.