Frá þessu er greint í tilkynningu.
- Verkfall á öllum gistiheimilum og hótelum á félagssvæði Eflingar. Þar undir falla hótelkeðjurnar Centerhotels og Keahótels, auk fjölda annarra hótela og gistihúsa. Áætlaður fjöldi er um sex hundrað manns. Með þessari vinnustöðvun yrðu öll störf undir kjarasamningum Eflingar á hótelum komin í verkfall.
- Verkfall hjá öryggisvörslufyrirtækjum. Undir boðunina falla fyrirtækin Securitas og Öryggismiðstöð Íslands, auk smærri fyrirtækja. Um er að ræða um fjögur hundruð manns.
- Verkfall hjá ræstingafyrirtækjum. Undir boðunina falla stærstu þrifafyrirtæki landsins á borð við Sólar og Daga auk minni fyrirtækja. Áætlaður fjöldi á kjörskrá er um 650 manns.
Fyrri þrjár verkfallsboðanir félagsins voru samþykktar með afgerandi meirihluta og góðri kjörsókn. Atkvæðagreiðslur hefjast klukkan 12 á hádegi á fimmtudag og lýkur klukkan 18 á mánudag eftir viku.
„Við höfum séð með skýrum hætti í verkfallsatkvæðagreiðslum síðustu vikna að ómissandi verkafólk í öllum geirum vinnumarkaðarins á Höfuðborgarsvæðinu stendur sameinað. Krafa okkar er um sanngjarnan kjarasamning þar sem tekið er tillit til aðstæðna og samsetningar félagsmannahópsins. Ég hvet til þess að gengið verði til samninga við okkur,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sjö hundruð í verkfalli og fjölgar á miðvikudag
Verkfall tæplega sjö hundruð félagsmanna Eflingar á sjö hótelum Íslandshótela í Reykjavík hófst í síðustu viku. Á miðvikudag hefst svo verkfall félagsmanna Eflingar sem starfa á öðrum hótelum auk bílstjóra á höfuðborgarsvæðinu hjá olíufélögum og Samskipum.
Landsréttur hefur á borði sínu kæru Eflingar á úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur á dögunum sem sagði miðlunartillögu ríkissáttasemjara löglega. Eflingu bæri að afhenda kjörskrá sína til að sáttasemjari gæti látið atkvæðagreiðslu fara fram meðal allra félagsmanna Eflingar um miðlunartillöguna.
Óvíst er hvenær niðurstaða liggur fyrir en Efling og sáttasemjari höfðu fallist á að skila gögnum í hraði fyrir helgi til að flýta fyrir meðferð málsins við réttinn.
Fréttin er í vinnslu.