Eða hvað?
Þótt því hafi oft verið haldið fram að vont veður dragi úr afkastagetu okkar og vinnugleði, hafa rannsóknir sýnt annað.
Því þegar að veðrið er gott, erum við svo mikið með hugann við það sem okkur langar helst til að vera að gera annað en að vinna.
Á meðan vont veður hefur þveröfug áhrif. Við horfum út um gluggann, langar ekkert út og því bara fínt að bretta upp ermar og reyna að afkasta sem mest og best.
Rannsóknir um áhrif veðurs á vinnussemi og framleiðni starfsfólks hafa verið gerðar víða um heim. Í dag tökum við nokkur dæmi frá rannsóknum sem gerðar voru í Japan og Bandaríkjunum.
Í Japan var rannsóknin til dæmis gerð þannig að starfsfólk vinnustaða með góðum gluggum, svaraði spurningum. Niðurstöðurnar sýndu að sól og gott veður truflaði fólk meira við vinnu en til dæmis rigning og leiðindi.
Ekki nóg með það að fólk væri duglegri í vinnunni þegar veðrið var leiðinlegt. Heldur sýndu niðurstöður einnig að fólk var nákvæmari við vinnu sína. Athyglin við verkefnin sem unnið var að, var meiri.
Í Bandaríkjunum hafa rannsóknir sýnt að starfsfólk ver meiri tíma við vinnu þegar veðrið er leiðinlegt. Og að þegar það er sól og gott veður, upplifir starfsfólk meiri letitilfinningu í vinnu.
Veðurfarið hefur meira að segja verið rannsakað sem áhrifavaldur á verðbréfamiðlun og fjárfestingar. Til dæmis hefur það verið skoðað hvernig áhættusækni fjárfesta getur verið mismunandi eftir því hvernig veðrið er. Þannig var það skoðað sérstaklega hvernig hlutabréfaviðskipti mældust tímabilið 1948 – 2010 í New York, með tilliti til veðurs. Þar sem líkurnar á meiri áhættusækni fjárfesta var sýnilegri þegar sólin skein. Kannski meira kæruleysi í gangi þá daga?
Svo mikið hefur verið rýnt í rannsóknir sem þessar að stjórnendum hefur jafnvel verið bent á að týna til léttari verk og viðvik á sólardögum. En að teymi vinni í flóknari og þyngri verkefnum á þeim tímabilum þar sem veðrið getur verið leiðinlegt.
Þá hefur því verið fleygt fram að efnahagslegur ávinningur getur mælst næstu árin á þeim svæðum þar sem loftlagsbreytingar munu leiða til kaldara veðurs og verri veðurskilyrða.
Enn aðrir hafa bent á að vont veður sé í rauninni ömurlegt fyrir alla. Nema vinnuveitendur.