Leikjavísir

Fyrsta trans persóna veraldar Harry Potter

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sirona Ryan er fyrsta trans kona veraldar Harry Potter.
Sirona Ryan er fyrsta trans kona veraldar Harry Potter.

Í nýjum tölvuleik um Hogwarts-skólann má finna fyrstu trans persónu veraldarinnar í kringum galdramanninn Harry Potter. J.K. Rowling, höfundur bókanna um Potter, hefur verið gagnrýnd fyrir að afneita tilvist trans fólks. 

Tölvuleikurinn Hogwarts Legacy kemur út seinna í vikunni og verður hægt að spila hann í öllum helstu leikjatölvum. Leikurinn gerist í sömu veröld og bækurnar og kvikmyndirnar um galdramanninn Harry Potter, nema á 19. öld. 

Einhverjir spilarar hafa fengið að prófa leikinn á undan öðrum og birt klippur af sér spila. Í leiknum má finna fyrstu trans persónu heimsins, bareigandann Sirona Ryan. Í leiknum segir Sirona að það hafi tekið samnemendur hennar í Hogwarts nokkurn tíma að átta sig á því að hún væri orðin norn og ekki lengur galdramaður eftir að hafa ekki hitt hana í nokkur ár. 

Þetta þykir afar merkilegt þar sem höfundur bókanna um Harry Potter, og þar með sú sem bjó til Hogwarts-skólann, J.K. Rowling, hefur verið gagnrýnd fyrir orðræðu sem mætti flokka sem hatur gegn trans fólki. Rowling kom hins vegar ekki nálægt gerð tölvuleiksins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×