Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur í orði óskað eftir því undanfarna daga að sáttasemjari víki. Nú hefur stéttarfélagið sent formlegt erindi til sáttasemjara sem Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður Eflingar, ritar.
Í erindinu er meðhöndlun ríkissáttasemjara á málinu rakin. Rök eru leidd að því hann hafi með framgöngu sinni gefið skýrt tilefni til að draga óhlutdrægni sína í efa.
„Ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu sína án þess að hann uppfyllti skilyrði laga um að ráðgast við Eflingu. Tillagan er efnislega samhljóða tilboði Samtaka atvinnulífsins, og kom í engum atriðum til móts við sjónarmið Eflingar,“ segir í kröfu Eflingar.
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í gær að Eflingu bæri að afhenda sáttasemjara kjörskrá sína tafarlaust svo sáttasemjari geti látið atkvæðagreiðslu um miðlunartillöguna fara fram hjá öllum félagsmönnum Eflingar. Sólveig Anna segist ekki ætla að afhenda kjörskrána fyrr en Landsréttur hefur tekið málið fyrir.
„Öll heildarsamtök launafólks á Íslandi hafa opinberlega gagnrýnt miðlunartillögu ríkissáttasemjara,“ segir í tilkynningu frá Eflingu. Er þar vísað til þess að ASÍ, SGS og VR hafa öll gagnrýnt tillöguna.
Verkfall félagsmanna Eflingar á sjö hótel í Reykjavík hefst klukkan tólf í dag. Þá lýkur atkvæðagreiðslu um víðtækari aðgerðir á átta hótelum til viðbótar auk bílstjóra hjá Samskipum og olíufélögum.
Erindið í heild sinni má sjá í viðhengi að neðan.