Sport

Segir NHL „hrækja framan í“ úkraínsk börn

Sindri Sverrisson skrifar
Alexander Ovechkin, sem er leikmaður Washington Capitals, og Sergei sonur hans fengu sviðsljósið í hæfileikakeppni stjörnuleiks NHL-deildarinnar.
Alexander Ovechkin, sem er leikmaður Washington Capitals, og Sergei sonur hans fengu sviðsljósið í hæfileikakeppni stjörnuleiks NHL-deildarinnar. Getty/Eliot J. Schechter

Tékkneska markmannsgoðsögnin Dominik Hasek hraunaði yfir bandarísku NHL-deildina í íshokkí og framkvæmdastjóra hennar, Gary Bettman, eftir sviðsljósið sem Rússinn Alexander Ovechkin og sonur hans fengu á stjörnuleik NHL.

Stjörnuleikur NHL-deildarinnar fer fram árlega og hluti af skemmtuninni er að sjá stjörnur deildarinnar keppa um hver sé fljótastur á svellinu, skjóti hraðast og fleira.

Það sem reitti Hasek til reiði var hins vegar þegar Ovechkin, sem er dyggur stuðningsmaður Vladimirs Pútín, kom inn á svellið með fjögurra ára son sinn, Sergei, í hæfileikakeppninni og strákurinn fékk að skora við fögnuð áhorfenda.

„NHL og Gary Bettman verða að svara til saka fyrir þetta viðbjóðslega atriði,“ skrifaði Hasek meðal annars á Twitter.

Dyggur stuðningsmaður Pútíns

Ástæðan er samband Ovechkin við Pútín, forseta Rússlands. Ovechkin hefur um árabil verið ötull stuðningsmaður Pútíns og enn í dag, ári eftir innrás Rússa í Úkraínu, er hann með mynd af sér og Pútín saman sem aðalmynd á Instagram-síðu sinni.

„Hann er forsetinn minn. En ég er ekki stjórnmálamaður, ég er íþróttamaður, og vonandi lýkur þessu fljótt. Þetta er erfið staða fyrir báða aðila,“ sagði Ovechkin skömmu eftir að innrás Rússa hófst í fyrra.

Í þessu ljósi var Hasek því síður en svo skemmt við að sjá Ovechkin-feðgana fá alla athyglina í stjörnuleiknum.

„NHL-deildin er komin niður á botninn. Það að leyfa syni Ovechkin að sýna sig á ísnum í NHL stjörnuleiknum er eins og að hrækja framan í andlit 500 látinna, úkraínskra barna, þúsunda slasaðra og tugþúsunda úkraínskra barna sem numin hafa verið á brott,“ skrifaði Hasek.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×