Handbolti

Hrafnhildur skoraði fjórtán þegar ÍBV skaust á toppinn

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði fjórtán mörk.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði fjórtán mörk. Hulda Margrét

ÍBV vann öruggan sigur á Framkonum í stórleik dagsins í Olís deildinni í handbolta en liðin áttust við í Vestmannaeyjum.

Eyjakonur hafa verið á fljúgandi siglingu að undanförnu og sjálfstraustið skein af liðinu í upphafi leiks þegar liðið lagði í raun grunninn að sigrinum með góðum upphafsmínútum.

Náði ÍBV mest átta marka forskoti í fyrri hálfleiknum en staðan í leikhléi var 17-11, ÍBV í vil.

Heimakonur héldu áfram yfirburðunum í síðari hálfleik; náðu mest tíu marka forystu og unnu að lokum öruggan fimm marka sigur, 30-25, þar sem Framkonum tókst að laga stöðuna með því að skora þrjú síðustu mörk leiksins.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var algjörlega óstöðvandi í leiknum og gerði fjórtán mörk fyrir ÍBV. Birna Berg Haraldsdóttir var næstmarkahæst Eyjakvenna með sjö mörk.

Í liði Fram voru Kristrún Steinþórsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir markahæstar með fjögur mörk hvor.

Með sigrinum fer ÍBV upp fyrir Val á toppi deildarinnar, um stundarsakir hið minnsta en Valskonur eru að spila við KA/Þór á Akureyri þegar fréttin er skrifuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×