Körfubolti

Sigrúnu vantar bara sjö leiki til að bæta leikjametið í efstu deild

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir í leik með Fjölni í vetur.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir í leik með Fjölni í vetur. Vísir/Bára

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Fjölni eftir ósætti á milli hennar og aðalþjálfara liðsins Kristjönu Jónsdóttur.

Sigrún yfirgefur Fjölni eftir að hafa spilað sextán leiki með Grafarvogsliðinu í vetur og skorað 9,3 stig og tekið 8,3 fráköst að meðaltali í leik.

Þetta gerist þegar Sigrúnu vantar aðeins sex leiki í viðbót til að jafna leikjametið í efstu deild kvenna á Íslandi sem er í eigu Birnu Valgarðsdóttur.

Sigrún lék sinn 369. leik í efstu deild í síðustu viku þegar Fjölnir tapaði á moti ÍR og Sigrún var með 12 stig og 11 fráköst í honum.

Birna lék sinn 375. og síðasta leik 25. mars 2015 en hún hafði á sínum tíma slegið leikjamet Hafdísar Elínar Helgadóttur. Anna María Sveinsdóttir var aftur á móti fyrsta konan til að spila þrjú hundruð leiki í efstu deild á Íslandi og átti leikjametið lengi.

Sigrún er frákastahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi (3026), hún er í þriðja sæti í stoðsendingum (1116), í þriðja sæti í stolnum boltum (683), í þriðja sæti í þriggja stiga körfum (431) og í fjórða sæti í stigaskori (4147).

  • Flestir leikir í efstu deild kvenna í körfubolta:
  • 1. Birna Valgarðsdóttir 375
  • 2. Þórunn Bjarnadóttir 371
  • 3. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 369
  • 4. Hafdís Elín Helgadóttir 366
  • 5. Hildur Sigurðardóttir 347
  • 6. Alda Leif Jónsdóttir 337
  • 7. Guðbjörg Sverrisdóttir 334
  • 8. Petrúnella Skúladóttir 329
  • 9. Anna María Sveinsdóttir 324
  • 10. Kristrún Sigurjónsdóttir 309



Fleiri fréttir

Sjá meira


×