Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - Haukar 88-97 | Haukar höfðu betur í tilþrifamiklum leik í Þorlákshöfn

Sæbjörn Þór Steinke skrifar
Hilmar SmáriHenningsson var frábær í liði Hauka í kvöld.
Hilmar SmáriHenningsson var frábær í liði Hauka í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Þórsarar tóku á móti Haukum í lokaleik 13. umferðar Subway-deildarinnar í kvöld og unnu gestirnir níu stiga sigur, 88-97, í Icelandic Glacial hölllinni.

Heimamenn leiddu með fimm stigum í leikhléi en í seinni hálfleiknum voru gestirnir öflugri, byrjuðu hálfleikinn frábærlega og vel smurður sóknarleikur skilaði að lokum tveimur stigum í pokann. Á sama tíma var minni orka einhvern veginn í varnarleik Þórsara sem hafði verið frábær í fyrri hálfleik.

Einungis munaði fjórum stigum á liðunum þegar rúmlega 40 sekúndur voru eftir og fengu heimamenn tækifæri til að minnka muninn en tókst það ekki og gestirnir skoruðu svo síðustu fimm stig leiksins.

Leikurinn einkenndist af hálofta tilþrifum þar sem nokkrar fallegar troðslur fengu að líta dagsins ljós og eiginlega jafnmörg tilþrif þar sem um varið skot var að ræða. Ungu stjörnurnar, þeir Hilmar Smári Henningsson og Styrmir Snær Þrastarson sýndu á köflum mögnuð tilþrif. Þórsarar vörðu alls sex skot í leiknum og Haukar þrjú.

Haukar eru með sigrinum áfram í fjórða sæti deildarinnar, einum sigri frá toppliði Vals sem á leik til góða. Þórsarar eru í ellefta sæti, einum sigri fyrir ofan botnlið KR og með jafnmarga sigra og ÍR sem er í 10. sætinu.

Haukar frumsýndu Daníel Ágúst Halldórsson í leiknum en hann kom til félagsins frá Þórsurum á dögunum. Daníel átti enga sérstaka innkomu í fyrri hálfleikinn en lék vel í seinni hálfleik, skoraði fimm stig og hafði góð áhrif varnarlega. Hjá Þór spilaði Jordan Semple sinn fyrsta leik og skoraði hann fjögur stig og tók sjö fráköst á tæpum 25 mínútum.

Af hverju unnu Haukar?

Innkoma Hauka í seinni hálfleikinn gaf tóninn fyrir það sem kom svo í kjölfarið. Liðið gat ekki hætt að skora í byrjun seinni hálfleiks og varamennirnir héldu góðum takti þegar þeir svo tóku við keflinu. Þegar leið á seinni hálfleikinn fór Vincent Shahid, aðalskorari Þórsara, að þreytast enda búinn að þurfa að hafa Darwin Davis og svo Daníel Ágúst Halldórsson andandi ofan í hálsmálið á sér öllum stundum.

Haukar náðu að drepa svolítið stemninguna sem hafði náðst í höllinni á köflum í fyrri hálfleik og heyrðist minna í stuðningsmönnum í seinni hálfleiknum.

Þessir stóðu upp úr:

Hilmar Smári Henningsson átti frábæran seinni hálfleik og endaði sem stigahæsti leikmaður vallarins. Hilmar var með 28 í framlag, 26 skoruð stig, þrjá þrista, 50% skotnýtingu, fimm fráköst, sjö stoðsendingar, sex fiskaðar villur, tvo stolna bolta og eitt varið skot. Hann lét það ekki á sig fá þó að Þórsarar vörðu skot frá honum í þrígang í leiknum.

Norbertas Giga, sem mögulega er besti evrópski leikmaður deildarinnar, var sömuleiðis frábær, skoraði 24 stig, tók átta fráköst og fiskaði sjö villur.

Orri Gunnarsson skilaði einnig sínu, skoraði fimmtán stig og tók sjö fráköst og Darwin Davis átti mjög góðan fjórða leikhluta.

Hjá Þórsurum var Shahid stigahæstur með 25 stig og hann gaf auk þess átta stoðsendingar. Pablo Hernandez og Styrmir voru næstir á eftir honum með sautján stig hvor.

Hvað gekk illa?

Heimamennirnir Emil Karel Einarsson og Davíð Arnar Ágústsson skiluðu samanlagt núll stigum í kvöld. Emil spilaði lítið og spurning hvort hann verði áfram í takmörkuðu hlutverki eftir komu Jordans. Davíð barðist mikið og braut af sér fjórum sinnum á tæpum átján mínútum sem hann spilaði. Hann endaði hæstur í plús/mínus tölfræðinni hjá heimamönnum og ljóst að liðið spilar vel með hann innanborðs. Þórsarar verða að finna mínútur og skot fyrir þessa menn því þeim fylgir mikil stemning þegar skotin detta og það getur breytt leikjum.

Þórsarar héldu Haukum í 41 stigi í fyrri hálfleik sem er ágætt en 56 stig á sig í seinni hálfleik er of mikið.

Hjá Haukum gekk ekki vel þegar Daniel Mortensen var utan vallar. Þær tvær mínútur og 45 sekúndur sem hann sat utan vallar töpuðu Haukar með átta stigum.

Hvað gerist næst?

Þórsarar fara austur á Egilsstaði næsta fimmtudag og degi seinna taka Haukar á móti KR í Ólafssal.

Lárus Jónsson: Hilmar var X-faktorinn í leiknum

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs.Vísir/Vilhelm

„Mér fannst varnarleikurinn góður í fyrri hálfleik en hann var lélegur í þriðja leikhluta þegar þeir skora þrjátíu stig. Það getur komið fyrir að þú klikkir skotum en ef við hefðum haldið sama varnarleik og í fyrri hálfleik þá hefðum við getað unnið þennan leik,“ sagði Lárus Jónsson, þjálfari Þórsara, eftir tapið í kvöld.

„Þeir voru mjög góðir í þessum leik, náðu betra flæði, fengu körfur úr mörgum áttum og Hilmar var að gera okkur lífið leitt. Hann var kannski svona X-faktorinn í þessum leik og Giga var mjög góður.“

Lárus var svekktur að gestirnir náðu talsvert af sóknarfráköstum eftir að Þórsarar höfðu spilað góða vörn.

„Þeir hittu illa í fyrri hálfleik og þá vorum við agressífari í vörninni. Ég þarf að greina það aðeins nánar út af hverju þeir voru að hitta betur úr skotunum í seinni hálfleik. Vörnin hjá okkur í seinni hálfleik var léleg.“

Lárus segir að markmið Þórsara sé að komast í úrslitakeppnina.

„Við hikstuðum aðeins núna, kannski eðlilegt þar sem nýr maður er að koma inn í hlutina. Mér finnst hópurinn vera nægilega góður til að komast í úrslitakeppnina. Mér finnst við hafa allt til að geta gert mjög góða hluti í þessari deild. En við þurfum að vinna leiki, vinna heimaleikina og tengja saman sigurleiki“ sagði Lárus að lokum.

Hilmar Smári: Ekki ef það eru Styrmir og Tómas

Hilmar Smári Henningsson átti frábæran leik í kvöld.Vísir/Diego

„Mér fannst við vera vel undirbúnir fyrir þennan leik, fórum mjög vel eftir leikskipulagi, sérstaklega í seinni hálfleik. Við vitum alveg hverjir þeirra styrkleikar þeirra og veikleikar eru og mér fannst við ná að koma í veg fyrir að þeir næðu að nýta sína styrkleika í seinni hálfleik,“ sagði ánægður Hilmar Smári Henningsson , leikmaður Hauka, eftir leikinn í kvöld.

Haukar lentu fimm stigum undir í byrjun fjórða leikhluta en Hilmar segir gestina aldrei hafa verið stressaða.

„Það var eiginlega svolítið gangur leiksins, jafn leikur og upp og niður um 2-5 stig. Stundum voru við yfir og stundum ekki. Mér leið aldrei eins og við værum að missa þetta frá okkur en mér leið heldur aldrei eins og við værum að sigla í alvöru fram úr heldur.“

Það var mikil barátta á milli Hilmars og Styrmis í leiknum í kvöld.

„Við erum tveir leikmenn sem vilja komast langt í íþróttinni að kljást við hvorn annan. Við Styrmir erum mjög góðir vinir og hann er toppleikmaður í þessari deild. Það er ekki hægt annað en að gefa honum „props“ fyrir að vera einn af þeim bestu í deildinni.“

Hilmar og Styrmir hafa mikið æft og spilað saman í yngri landsliðunum og eru mjög góðir vinir.

Alls voru þrjú varin skot frá Hilmari. Fer það einhvern tímann í hausinn á þér þegar það er verið að verja skot frá þér?

„Í rauninni ekki, ekki ef það eru Styrmir og Tómas. Þeir eru báðir mjög hæfileikaríkir í því að blokka skot og tímasetja sig mjög vel. Þeir eru alltaf á réttum stað á réttum tíma. En að sjálfsögðu, ef þeir hefðu náð nokkrum skotum í viðbót þá hefði ég orðið frekar pirraður,“ sagði Hilmar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira