Frá þessu er greint á vef Sunnlenska en eins og Vísir greindi frá á dögunum er bygging nýrrar tvíbreiðrar brúar yfir Stóru-Laxá langt komin.
„Út af því er er þrengt svo mikið að farveginum. Þess vegna stendur til að rjúfa veginn við gömlu brúna núna til að við eigum það ekki á hættu að við förum að missa, þetta er náttúrulega rosalega mikið mannvirki, þessi undirsláttur sem búið er að fara í undir brúna. Það væri mikið tjón ef það myndi skemmast,“ segir Svanur Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar í samtali við Vísi.
Er þetta gert til þess að vatnavextirnir eigi greiða leið framhjá brúnni. Vegurinn verður rofinn á morgun en bent er á hjáleið um Skálholtsveg, Biskupstungnabraut og Bræðratunguveg, eins og sjá á meðfylgjandi korti.
Spáð er allt að ellefu stiga hita á föstudag og laugardag og því mikil hláka í kortunum. Víða á Suðurlandi hafa menn áhyggjur af vatnavöxtum af þessum völdum. Fylgst er sérstaklega með Ölfusá, Hvíta, Þjórsá og Markarfljóti.
„Við reynum bara að vakta þetta eins og við getum og bregðast við ef eitthvað gerist,“ segir Svanur.
Hin nýja brú er 145 metrar á lengd og um þúsund tonn af járni fara í gólfið á nýju brúni, sem verður tvíbreið. Búið er að reisa skála yfir brúna svo hægt verði að steypa gólfið í henni. Að sögn Svans er reiknað með að steypuvinna geti hafist eftir helgi.
Magnús Hlynur Hreiðarsson, fréttamaður okkar á Suðurlandi, kíkti á brúna fyrir skömmu, eins og sjá í meðfylgjandi frétt.