Tekjuhæsta mynd ársins í kvikmyndahúsum á Íslandi var önnur kvikmyndin um skósveinana vinsælu, Minions: The Rise of Gru betur þekkt á íslensku sem Skósveinarnir: Gru rís aftur. Kvikmyndin halaði inn tæpum 70 milljónum króna í miðasölu en yfir 50 þúsund kvikmyndahúsagestir sáu skósveina hins illa Gru snúa aftur.
Batman nartar í hælana á Elvis
Í öðru sæti yfir tekjuhæstu kvikmyndir ársins var það svo Elvis Presley sem dró kvikmyndahúsagesti að en kvikmyndin um ævi stórstjörnunnar í leikstjórn Baz Luhrman, Elvis, þénaði yfir 60 milljónir króna hérlendis og voru tæplega 40 þúsund manns sem lögðu leið sína í kvikmyndahús til að sjá kónginn snúa aftur.
Í þriðja sæti listans var svo nýjasta myndin um ofurhetjuna vinsælu Batman. Kvikmyndin Batman skartaði nýjum leðurblökumanni og nýjum leikstjóra og aðdáendur ofurhetjunnar létu sig ekki vanta í kvikmyndahús. Batman var rétt á eftir Elvis í listanum og þénaði yfir 60 milljónir króna ásamt því að taka á móti tæplega 40 þúsund manns.
Allra síðasta veiðiferðin tekjuhæsta íslenska myndin
Í næstu sætum listans má svo sjá fleiri framhaldsmyndir eins og Avatar: The Way of the Water, Top Gun: Maverick og Marvel hetjurnar Thor: Love & Thunder og Doctor Strange in the Multiverse of Madness. Allra síðasta veiðiferðin var eina íslensk kvikmyndin sem rataði inn á listann yfir 20 tekjuhæstu kvikmyndir ársins en 19 íslensk verk voru sýnd í kvikmyndahúsum á árinu.
Færri kvikmyndahúsagestir sáu íslensk verk í kvikmyndahúsum þetta árið samanborið við árið áður. Heildartekjur af íslenskum verkum á árinu voru tæpar 128 milljónir samanborið við rúmar 146 milljónir króna árið 2021 eða 12,8% minnkun á milli ára. Samtals nam miðasala í íslenskum kvikmyndahúsum 1.279.718.817 kr., sem er 18% hækkun frá árinu á undan. 845.699 manns lögðu leið sína í kvikmyndahús á árinu sem er 10,5% aukning frá árinu 2020.