Brynhildur Yrsa segir í samtali við Vísi að hún og dóttir hennar hafi ákveðið að „flippa aðeins“ þegar inniveran í covidfaraldrinum lék landsmenn grátt. Hún kveðst ekki hafa búist við því að skeytið myndi nokkurn tímann finnast og hvað þá tæpum þremur árum síðar.
Það var fjölskylda sem býr í Suður-Frakklandi sem fann skeytið um helgina. Fjölskyldan var í helgarferð nálægt Bordeaux þegar þau fundu skeytið.
„Þau voru rosalega ánægð. Þau fóru í fjöruferð og rákust á þetta, hjón með fimm ára barn. Og konan sem fann þetta var svo himinlifandi vegna þess að hún hefur komið tvisvar til Íslands og er rosalega hrifin af Íslandi. Þannig að henni fannst mjög gaman að hafa fundið þetta.“

Brynhildur Yrsa segist hafa séð fyrir sér að flöskuskeytið myndi enda á Írlandi eða í Bretlandi, ef það myndi einhvers staðar enda. Þegar hún opnaði tölvupóstinn í morgun var hún ekki lengi að svara.
„Ég sendi bara strax til baka og þakkaði fyrir að senda og ég hefði verið búin að steinagleyma þessu – og að það væri gaman að sjá þetta fara alla leið þangað. Hún sendi mér þá til baka og er búin að finna mig á Instagram og adda mér þar. Þannig að við erum orðnar bara næstum því pennavinkonur,“ segir hún og hlær.
„Ef þau koma hingað einhvern tímann aftur ætla ég pottþétt að athuga hvort hún vilji hitta mig.“