Ísland hóf HM í handbolta með góðum sigri eftir að staðan var jöfn 15-15 í hálfleik. Segja má að Ísland hafi verið á heimavelli í Kristianstad í kvöld.
„Yndislegt að koma hérna, vera á heimavelli og kveikja í höllinni með góðri byrjun. Frábært kvöld að baki.“
Björgvin Páll byrjaði leik kvöldsins en talið var að Viktor Gísli Hallgrímsson myndi byrja í marki Íslands í kvöld. Markvörðurinn segir það ekki skipta þá félaga öllu máli.
„Við erum í löngu móti og ætlum okkur að fara langt, þá þurfum við á öllum að halda. Hvort sem ég eða Viktor byrjum skiptir engu máli. Það sem skiptir máli er að við verjum boltana og vinnum leikina, það heppnaðist vel í dag. Viktor kom inn og tók mikilvæga bolta þegar á reyndi.“
Björgvin Páll fékk skot í höfuðið og hvíldi örlítið í kjölfarið.
„Var smeykur, meira það. Í beini framhaldi fengu þeir víti sem Viktor varði og þá vildi ég gefa mér smá tíma til að meta stöðuna með sjúkraþjálfaranum. Þetta er ekki fyrsta skotið sem ég fæ í hausinn, þekki sjálfan mig ágætlega. Vildi bara gefa mér nokkrar mínútur til að skoða þetta. Viktor var góður og það var ekkert stress að koma aftur inn á. Svo kom kallið, þá var ég mættur og engir eftirmálar af þessu.“
„Þetta var frábær leikur og gaman að geta glatt stúkuna með sigri. Frábært að byrja mótið svona gegn hörkuliði, fólk áttar sig ekki alveg á hvað þeir eru góðir. Við setjum pressu á okkur sjálfa og ætlum okkur langt, þetta er bara ein hindrun á leiðinni. Þetta skilar engu ef við töpum á móti Ungverjum,“ sagði Björgvin Páll að endingu en ásamt því að verja vel þá gerði hann sér lítið fyrir og skoraði eitt mark í kvöld.