Innlent

Stórt snjóflóð féll inn af Flateyri í gærkvöldi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bláa svæðið til hægri á myndinni sýnir hvar snjóflóðið féll.
Bláa svæðið til hægri á myndinni sýnir hvar snjóflóðið féll. Veðurstofa Íslands

Allstórt snjóflóð féll nærri Flateyri í gærkvöldi og stöðvaðist um fjörutíu metra ofan við veg. Mesti hraði í flóðinu mældist upp á 54 m/s.

Snjóflóðaratsjá á Flateyri nam flóðið klukkan 23:12 í gærkvöldi. Snjóflóðið féll í Miðhryggsgili innan við Flateyri. Myndin að ofan sýnir gögn frá ratsjánni og útbreiðslu flóðsins.

„Snjóflóðið kom á óvart þar sem veðrið var að mestu gengið niður en er að sama skapi vísbending um að það þurfi ekki mikið álag til að setja af stað snjóflóð,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Búast megi við að svipaðar aðstæður geti leynst víða á landinu þar sem nýr snjór hefur safnast og er útivistarfólk hvatt til að fara með gát ef ferðast er um brattar hlíðar með nýjum snjó. 

Nánar um snjóflóðahættu á bloggsíðum snjóflóðavaktarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×