Fótbolti

Bale leggur skóna á hilluna

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bale endaði ferilinn með Wales á HM.
Bale endaði ferilinn með Wales á HM. EPA-EFE/Peter Powell

Gareth Bale, leikmaður Los Angeles FC og velska landsliðsins í fótbolta, hefur tilkynnt að skórnir séu komnir upp í hillu. Bale er aðeins 33 ára gamall.

Síðustu leikir Bale á ferlinum voru með velska landsliðinu sem féll út í riðlakeppninni á HM í Katar í síðasta mánuði. Wales var þá að taka þátt á heimsmeistaramóti í fyrsta sinn í hálfa öld.

Bale tilkynnti um endi leikmannaferils síns í yfirlýsingu á samfélagsmiðlinum Twitter í dag.

Bale hóf feril sinn með Southampton á Englandi en fór ungur til Tottenham hvar hann breyttist úr vinstri bakverði í kantmann og síðar framherja. Hann skoraði 21 mark fyrir félagið leiktíðina 2012-13 og var í kjölfarið valinn besti leikmaður tímabilsins.

Sumarið eftir gerði Real Madrid hann að dýrasta leikmanni sögunnar þegar spænska stórveldið borgaði Tottenham 100 milljónir evra fyrir kauða. Bale lék í spænsku höfuðborginni í sjö ár en það fjaraði hressilega undan ferli hans þar eftir því sem leið á.

Hann vann spænska meistaratitilinn þrisvar og Meistaradeildina fimm sinnum með Madrídingum og þá endaði hann félagsferil sinn með því að sinna MLS-deildina með Los Angeles FC í vetur.

Hann skoraði 41 mark í 111 landsleikjum fyrir Wales en stærsta afrek hans með landsliðinu, utan þess að koma liðinu á HM, var þegar Walesverjar komust í undanúrslit á EM 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×