Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands sagði í jólaprédikun sinni í gær að þöggun ríkti um Guð. Ekki væri vinsælt að nefna hann á nafn í opinberri umræðu. Hún gerði heimsóknir skólabarna í kirkjur á jólunum meðal annars að umtalsefni.
Inga Auðbjörg Straumland formaður Siðmenntar vakti athygli á orðum biskups í færslu á Twitter. Hún sagði óviðeigandi að biskup spilaði sig sem fórnarlamb, gulli skrýdd á háum launum. Í samtali við fréttastofu segir Inga Auðbjörg að henni þyki þetta hallærislegt.
Það er svo óviðeigandi að standa þarna, gulli skrýdd, á háum launum í boði þjóðarinnar, þar sem þú færð borgað fyrir að stunda trúboð á þinni trú, og spila sig sem eitthvað fórnarlamb. Það eina sem er að gerast er að fólk er farið að setja spurningarmerki við forréttindi þín. https://t.co/lpcn6QQeXI pic.twitter.com/qKD3dlqULs
— Inga Auðbjörg K. Straumland (@ingaausa) December 25, 2022
„Náttúrulega bara rangt“
„Þau eru í mikilli forréttindastöðu og fá alveg ótæpilega mikla fjármuni frá ríkinu. Og þannig geta þau haldið ákveðinni einokunarstöðu á alls konar þjónustuþáttum. Þannig að mér finnst ekki í lagi að hún spili sig sem eitthvað fórnarlamb, það er náttúrulega bara rangt að það sé verið að þagga niður Guð kristinna manna, það er engin þöggun í gangi varðandi hann.“
Hún segir að Þjóðkirkjan fái 80 klukkutíma trúboð í Ríkisútvarpinu, eitthvað sem önnur lífsskoðunarfélög - kristin eða veraldleg - fái ekki. Þöggunin sé nákvæmlega ekki nein.
„Það er bara viðspyrna í gangi. Ég held að það sé mjög greinilegt að kirkjan haldi að hún sé að ná einhverjum botni og geti spyrnt svona í botninn. Þau eru komin undir 60 prósent í fyrsta skipti. Ég held að kirkjan finni það að hún sé ekki lengur eins „relevant“ í íslensku samfélagi og ætlar að reyna að spyrna í botninn. En í staðinn fyrir að gera það með því að reyna að vera relevant þá gerir hún það með því að væla yfir hlutskipti sínu,“ segir Inga Auðbjörg.