Fótbolti

Netverjar hlæja að hornspyrnu forseta FIFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA, ræðir hér við blaðamenn á lokablaðamannafundi sínum á heimsmeistaramótinu í Katar.
Gianni Infantino, forseti FIFA, ræðir hér við blaðamenn á lokablaðamannafundi sínum á heimsmeistaramótinu í Katar. AP/Martin Meissner

Gianni Infantino, forseti FIFA, er óvinsæll og veit af því. Hann varð að banna að sýna sig á stóra skjánum á leikjunum á HM vegna þess að það var alltaf púað svo mikið.

Hinn 52 ára gamli Infantino varði Katar og mannréttindabrot landsins með því að heimta að menn hættu að tala um pólitík og einbeittu sér að fótboltanum. Þetta var eitt af því sem gerði hann mjög óvinsælan.

Hann hefur síðan lofað gestgjafa heimsmeistarana út í eitt eftir mótið en hann hefur verið mikið búsettur í Katar vegna vandræða heima í Sviss.

Infantino átti samt örugglega ekki von á því að næst færu menn að fjalla tilþrif hans á fótboltavellinum.

Infantino tók nefnilega þátt í góðgerðaleik út í Katar á meðan heimsmeistaramótinu stóð.

Myndband af forseta FIFA að taka hornspyrnu í umræddum leik hefur vakið athygli á netinu enda finnst netverjum tilþrif Infantino frekar fyndin.

Infantino mætti við hornfánann með fyrirliðanbandið, undirbjó sig mjög vel fyrir spyrnuna og tók tilhlaup eins og Cristiano Ronaldo.

Útkoman var kannski eins og tilraunir hans til að verja mannréttindabrotin í Katar, hrein hörmung. Hann virtist sparka í boltann með tánni, spyrnan var flöt og fór beint aftur fyrir markið. Með öðrum orðin, ekki til útflutnings, ekki einu sinni til Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×