Fótbolti

Mætti bókstaflega með geit í argentínska búningnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skilti með Lionel Messi á úrslitaleik Argentínu og Frakklands um síðustu helgi.
Skilti með Lionel Messi á úrslitaleik Argentínu og Frakklands um síðustu helgi. Getty/Matthew Ashton

Lionel Messi er orðinn „geitin“ í fótboltasögunni augum mjög margra eftir að hann leiddi argentínska landsliðið til heimsmeistaratitilsins um síðustu helgi.

Þegar er talað um geitina þá er það enska skammstöfunin á „Greatest of all time“ eða GOAT sem þýðir besti leikmaður allra tíma.

Einn argentínskur stuðningsmaður mætti með gæludýrið sitt til að horfa á Argentínu verða heimsmeistari en það var þó ekki hundur eða köttur.

Til að leggja áherslu á það að landi hans væri ekki aðeins lifandi goðsögn heldur einnig sá besti sem hefur nokkurn tímann spilað fótbolta þá mætti hann bókstaflega með geit í argentínska búningnum.

Messi vantaði bara heimsmeistaratitilinn því nú hefur kappinn unnið allt sem er í boði fyrir fótboltamenn en flesta félagstitlana hefur hann unnið mörgum sinnum. Þetta var fimmta og síðasta heimsmeistaramótið hans sem fékk fullkominn endi.

Það fylgir ekki sögunni af geitinni hvort að hún hafi haldið út allan tímann enda fór úrslitaleikurinn alla leið í vítakeppni. Hún var alla vega með í fjörinu þegar sigurinn vannst. Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir af þessum sérstaka stuðningsmanni Lionel Messi og argentínska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×