Fótbolti

KSÍ mun ekki styðja Infantino til endurkjörs

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA.
Gianni Infantino, forseti FIFA. Alex Livesey - Danehouse/Getty Images

Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, mun ekki styðja við framboð Gianni Infantino til endurkjörs sem forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA.

Þetta kom fram á stjórnarfundi sambandsins sem hanldinn var á Selfossi þann 8. desember síðastliðinn og Fótbolti.net greindi frá fyrr í dag.

Formannskjör FIFA fer fram þann 23. mars næstkomandi og er Infantino einn í framboði.

Í fundargerð fundarins á Selfossi kemur hins vegar fram að KSÍ ætli sér ekki að styðja við framboð Infantinos og lýsir stjórn sambandsins yfir vonbrigðum sínum með tilteknar ákvarðanir FIFA sem teknar voru í tengslum við HM sem fram fór í Katar.

„Rætt um málefni FIFA. Stjórn KSÍ lýsir yfir vonbrigðum með tilteknar ákvarðanir Alþjóða knattspyrnusambandsins (FIFA), sem hafa verið teknar í tengslum við Heimsmeistarakeppni karlalandsliða í Katar. Í ljósi þessa hefur stjórn KSÍ ákveðið að styðja ekki við framboð Gianni Infantino til forseta FIFA," segir í fundargerðinni.

FIFA lá undir mikilli gagnrýni í aðdraganda heimsmeistaramótsins í Katar, og á meðan því stóð. Sambandið bannaði fyrirliðum Evrópuþjóða meðal annars að bera fyrirliðabönd með regnbogalitunum til stuðnings baráttu hinseginfólks, ásamt því að blaðamanninun Grant Wahl var meinaður aðgangur að leikvangi fyrir að klæðast bol í regnbogalitunum svo eitthvað sé nefnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×