Innlent

Lopa­skortur á Ís­landi: „Ekkert lúxus­vanda­mál“

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Ístex er eitt stærsta ullarvinnslufyrirtæki landsins sem framleiðir handprjónaband úr íslenskri ull, þar á meðal Álafosslopa, Einbandi, Jöklalopa, Léttlopa og Plötulopa.
Ístex er eitt stærsta ullarvinnslufyrirtæki landsins sem framleiðir handprjónaband úr íslenskri ull, þar á meðal Álafosslopa, Einbandi, Jöklalopa, Léttlopa og Plötulopa. Ístex

Handóðir prjónarar og annað hannyrðafólk hefur líklega ekki farið varhuga af lopaskorti sem ríkir á landinu. Framkvæmdastjóri Ístex segir að fyrirtækið anni hreinlega ekki eftirspurn. Það sé hinsvegar ekki lúxusvandi heldur raunverulegt vandamál.

Ístex er eitt stærsta ullarvinnslufyrirtæki landsins sem framleiðir handprjónaband úr íslenskri ull, þar á meðal Álafosslopa, Einbandi, Jöklalopa, Léttlopa og Plötulopa. Í samtali við fréttastofu segir Sigurður Sævar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ístex að allra leiða sé leitað til að auka afköstin en staðan sé núna sú að fyrirtækið anni ekki eftirspurn.

„Lopaskorturinn einskorðast ekki aðeins við Ísland heldur allan heiminn. Í Finnlandi hefur verið um 200% aukning á hverju ári undanfarin ár, eða frá 2017. En auk þess erum við að sjá aukningu í Svíþjóð, Noregi, Bandaríkjunum og Þýskalandi. Við reynum eins og við getum að láta Íslandsmarkað ganga fyrir.

Yngra fólk með ýmislegt á prjónunum

Sigurður segir að fyrir árið 2017 hafi það mestmegnis verið eldri kynslóðir að prjóna, konur 55 ára og eldri.

 „Núna erum við hins vegar að sjá aukningu hjá öllum kynslóðum. Sífellt yngra fólk er að læra að prjóna. Svo breyttist eitthvað í covid og við erum að sjá sífelda aukningu.“

Ekkert lúxusvandamál

„Það er alltaf verið að spyrja hvort þetta sé ekki lúxusvandamál, ég er orðinn þreyttur á því. Þetta er raunverulegt vandamál. Við erum að fjárfesta í tækjum, tólum og auknum mannskap til að auka framleiðsluna. En það er bara svona þegar maður er á stóru skipi, þá er erfitt að snúa," segir Sigurður Sævar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×