Innlent

Öllu flugi Icelandair af­lýst

Árni Sæberg skrifar
Örtröð myndaðist í Leifsstöð í kvöld.
Örtröð myndaðist í Leifsstöð í kvöld. Aðsend

Icelandair hefur ákveðið að aflýsa öllum flugferðum sem fara átti í kvöld og í nótt. Um er að ræða ellefu ferðir til Norður-Ameríku, eina til Kaupmannahafnar og eina til Lundúna.

Þetta staðfestir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við Vísi. Hún segir að nokkur töf hafi verið á brottförum í morgun, allt að fjórar klukkustundir, vegna veðurs. Þó hafi allar ferðir verið farnar í dag.

Ásdís segir að eftir að ákvörðun um aflýsingu vegna veðurs var tekin í kvöld hafi vinna við að koma þeim farþegum sem þurfa á hótel hafist. Þá sé vinna þegar hafin við að koma farþegum fyrir í öðrum flugferðum og allir farþegar muni fá senda nýja ferðaáætlun.

Af myndum, sem Vísi hafa borist í kvöld, að dæma hefur þónokkur fjöldi farþega verið kominn út á flugvöll áður en ákvörðun var tekin um að aflýsa flugferðum. 

Sumir bíða úti í vél

Þá segir Ásdís Ýr að níu af af þeim tólf flugvélum sem lenda áttu á Keflavíkurflugvelli í kvöld séu lentar. Þrjár séu rétt ókomnar.

Hún segir að þrjár vélar bíði enn úti á flugbraut eftir því að komast upp að flugstöðinni. Snjófergi geri aðgang að flugstöðinni erfiðan.

Að lokum segir Ásdís Ýr að ekki sé útilokað að einhverjar tafir verði á morgun vegna keðjuverkandi áhrifa og því séu farþegar hvattir til að fylgjast vel með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×