Körfubolti

Komst í hóp með Helenu og Birnu: „Hún er orðin uppáhalds leikmaðurinn minn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tinna Guðrún Alexandersdóttir er með tæp tuttugu stig að meðaltali í leik.
Tinna Guðrún Alexandersdóttir er með tæp tuttugu stig að meðaltali í leik. vísir/hulda margrét

Tinna Guðrún Alexandersdóttir, nítján ára leikmaður Hauka, var ausin lofi í síðasta þætti Subway Körfuboltakvölds.

Tinna skoraði 34 stig þegar Haukar lögðu Íslandsmeistara Njarðvíkur að velli í Ljónagryfjunni, 77-81. Aðeins tveir aðrir íslenskir leikmenn hafa afrekað það að skora þrjátíu stig í tveimur leikjum í röð; Helena Sverrisdóttir og Birna Valgarðsdóttir.

„Hún er búin að vera ofboðslega flott og við sjáum bara viðtölin við hana, hvað hún er hógvær og hún er svo mikill liðsmaður,“ sagði Pálína Gunnlaugsdóttir um Tinnu sem er frá Stykkishólmi og hóf ferilinn með Snæfelli.

„Ég held að fólk átti sig ekki alveg á því sem hún hefur gert. Hún stígur inn í besta liðið í deildinni og hún er kellingin. Það er eins og hún hafi alltaf verið þarna. Hún þorði að taka skotin og þorir því þótt hún klikki á tíu í röð.“

Klippa: Subway Körfuboltakvöld - Umræða um Tinnu

Ólöf Helga Pálsdóttir Woods gekk enn lengra í hrósinu og sagði að í hennar augum væri Tinna verðmætasti leikmaður deildarinnar (MVP).

„Vopnabúrið hennar, þetta „crossover“, fótavinnan og skotin. Ég er svo heilluð af henni. Hún er MVP-inn minn hingað til. Hún er orðin uppáhalds leikmaðurinn minn,“ sagði Ólöf.

Tinna er stigahæsti íslenski leikmaður deildarinnar með 18,5 stig að meðaltali í leik. Auk þess er hún með 3,8 fráköst og 2,6 stoðsendingar í leik.

Horfa má á umfjöllunina um Tinnu í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×