Fótbolti

Segir að FIFA hafi heilaþvegið Wenger

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arsene Wenger er starfsmaður FIFA.
Arsene Wenger er starfsmaður FIFA. getty/Pedro Vilela

Arsene Wenger hefur verið heilaþveginn af FIFA og hefur farið úr því að vera klárasti maðurinn í bransanum yfir í það að segja ótrúlega heimskulega hluti. Þetta segir landsliðsþjálfari Noregs.

Mikla athygli vakti þegar Wenger, sem hefur unnið að þróunarmálum hjá FIFA síðan 2019, sagði að lið sem létu í sér heyra um mannréttindamál hefðu spilað verr á HM í Katar en önnur.

Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt Wenger fyrir þessi ummæli hans er Ståle Solbakken, þjálfari norska landsliðsins. Hann botnar ekkert í Wenger þessa dagana.

„Ég skelf vegna þess að klárasti maður heimsins, Arsene Wenger, sem fólk hefur litið upp til í gegnum árin hefur einhvern veginn verið heilaþveginn og segir núna hina heimskulegustu hluti,“ sagði Solbakken.

Talið var að Wenger að Wenger hefði skotið á Dani og Þjóðverja með ummælum sínum. Bæði lið létu í sér heyra fyrir HM og á meðan mótinu stóð en féllu úr leik í riðlakeppninni.

„Þegar þú ferð á HM veistu að þú getur ekki tapað fyrsta leiknum þínum. Liðin sem hafa reynslu af stórmótum eins og Frakkar og Englendingar spiluðu vel í fyrsta leiknum. Liðin sem voru andlega tilbúin og einbeittu sér að mótinu en ekki að pólítískum málum,“ sagði Wenger.

Hann lét af störfum sem þjálfari Arsenal 2018 eftir 22 ára starf hjá félaginu. Wenger hefur ekki þjálfað síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×