Erlent

Breskir hjúkrunar­fræðingar leggja niður störf

Atli Ísleifsson skrifar
Hjúkrunarfæðingarnir fara fram á nítján prósenta launahækkun.
Hjúkrunarfæðingarnir fara fram á nítján prósenta launahækkun. AP

Umfangsmestu verkfallsaðgerðir breskra hjúkrunarfræðinga í sögunni hefjast klukkan átta þegar hjúkrunarfræðingar í Englandi, Wales og Norður-Írlandi munu leggja niður störf.

Hjúkrunarfræðingarnir segjast áfram munu veita lífsnauðsynlega meðferð fyrir sjúklinga og bráðameðferð, en að líklegt sé að röskun verði til að mynda á valkvæðum aðgerðum.

Talsmenn stéttarfélags hjúkrunarfræðinga segja að ekkert annað hafi verið í stöðunni en að grípa til verkfallsaðgerðanna eftir að ráðherrar neituðu að setjast aftur við samningaborðið.

Talsmenn yfirvalda segja að breska ríkið hafi einfaldlega ekki efni á kröfum hjúkrunarfræðinga um nítján prósenta launahækkun. Er um að ræða fimm prósenta hækkun umfram verðbólgu.

Þetta eru umfangsmestu verkfallsaðgerðir hjúkrunarfræðinga í sögu breska heilbrigðiskerfisins, NHS. Hjúkrunarfræðingar á um fjórðungi spítala í Englandi, öllum heilbrigðisstofnunum á Norður-Írlandi og öllum nema einni í Wales munu leggja niður störf í aðgerðum dagsins.

Hjúkrunarfræðingarnir munu til að byrja með leggja niður störf í tólf klukkutíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×