Skrifað var í gær undir kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins við VR, Landssamband íslenskra verslunarmanna og samflot tækni- og iðnaðarmanna. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir aðstæður til samninga hafa verið bæði erfiðar og sérstakar. Lengra hafi ekki verið komist í viðræðunum og því hafi verið eining um það innan stjórnar VR að undirrita kjarasamning og leggja í dóm félagsmanna.
„Ég mun ekki mæla gegn þeim og ég mun heldur ekkert mæla sérstaklega með þeim. Ég held að fólk sé bara það upplýst að það geti tekið ákvörðun um það sjálft en ég held að fólk trúi því að við reyndum það sem við gátum. Við augljóslega vildum fá meira í gegn en þetta var niðurstaðan.“
Atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn hefst strax á morgun og stendur í viku.
„Ég reikna ekki með því að samningurinn verði felldur. Ég hef trú á því að hann verði samþykktur. Þetta er skammtímasamningur og hann er mjög stuttur og launahækkanirnar koma strax og þær skipta fólkið okkar máli. Ég held að fólkið sé almennt ekki tilbúið að fara í átök fyrir skammtímasamning. Ég held að það myndi þá bara þýða það ef að samningurinn verður felldur að þá verði farið í að ræða langtímasamning strax.“
Í nýja kjarasamningnum er tímasett viðræðuáætlun fyrir næsta samning og hefst vinna við hann á nýju ári. Ragnar segir verkalýðshreyfinguna nú þurfa að setjast niður til að fara yfir málin.
„Okkur hugnast þessi niðurstaða ekki“
„Við þurfum að líta inn á við og við þurfum að setjast niður og sjá hvað við getum gert til þess að þétta raðirnar. Þannig að við getum myndað þá nægilegan þrýsting til þess að fá einhverjar raunverulegar kerfisbreytingar inn í okkar samfélag.“
Kjarasamningar hafa nú náðst fyrir stærstan hluta launafólks á almenna vinnumarkaðnum en stéttarfélagið Efling er enn með lausa samninga. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segist ekki geta sætt sig við samninga líkt þá sem tókust í gær.
„Okkur hugnast þessi niðurstaða ekki. Þarna er náttúrulega verið að semja um prósentuhækkanir. Niðurstaðan þarna er að sú sem hafa lægstu launin fá minnst. Þau sem hafa hæstu launin fá mest. Þarna er náttúrlega líka verið að nota þetta módel sem að unnið var með þegar að Starfsgreinasambandið og Samtök atvinnulífsins undirrituðu sinn samning. Það hefur auðvitað komið fram í máli Halldórs Benjamíns að þetta eigi svona yfir alla að ganga. Þetta dugar ekki okkar fólki. Við eigum væntanlega einhverja baráttu fram undan til þess að ná ásættanlegum árangri fyrir okkur.“