Fótbolti

Sjáðu Svein­dísi Jane stinga allar af og skora fyrsta Meistara­deildar­markið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindis Jane Jónsdóttir átti frábæra innkomu í lið Wolfsburg í Meistaradeildinni í gær.
Sveindis Jane Jónsdóttir átti frábæra innkomu í lið Wolfsburg í Meistaradeildinni í gær. Getty/Martin Rose

Íslenski landsliðsframherjinn Sveindís Jane Jónsdóttir opnaði markareikning sinn í Meistaradeildinni í gærkvöldi þegar hún skoraði eitt af mörkum VfL Wolfsburg í 4-2 sigri á AS Roma í riðlakeppninni.

Sveindís Jane var ekki í byrjunarliðinu en kom inn á sem varamaður strax á tólftu mínútu þegar hollenski miðjumaðurinn Jill Roord meiddist.



Sveindís var fljót að breyta leiknum því hún lagði upp mark fyrir Ewu Pajor á 24. mínútu og skoraði síðan sjálf fimm mínútum fyrir hálfleik.

Í báðum mörkunum réðu varnarmenn Roma ekki við íslensku knattspyrnukonuna. Fyrra markið minnsti á umdeilt mark Japan á móti Spánverjum á HM en Sveindís náði þá að koma boltanum fyrir á Ewu rétt áður en hann fór út af vellinum við endalínuna.

Sveindís Jane Jónsdóttir skorar hér markið sitt fyrir Wolfsburg í gærGetty/Boris Streubel

Í marki Sveindísar þá fékk hún sendingu frá þýsku landsliðskonunni og jafnöldru sinni Lenu Oberdorf. Sveindís komst á flug og stakk varnarmenn Rómarliðsins af áður hún skoraði með laglegu skoti.

Sveindís hafði lagt upp mark í Meistaradeildinni á móti St. Polten í október en þetta var hennar fyrsta mark í Meistaradeildinni.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá leiknum og þar á meðal bæði mörkin sem Keflvíkingurinn bjó til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×