Fótbolti

Vilja halda Southgate sama hvernig fer gegn Frökkum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gareth Southgate er eini þjálfari enska landsliðsins sem hefur komið því í undanúrslit á tveimur stórmótum.
Gareth Southgate er eini þjálfari enska landsliðsins sem hefur komið því í undanúrslit á tveimur stórmótum. getty/Richard Sellers

Enska knattspyrnusambandið vill halda Gareth Southgate í starfi landsliðsþjálfara Englands sama hvernig leikurinn gegn Frakklandi í átta liða úrslitum á HM fer.

Southgate hefur stýrt enska landsliðinu frá því í október 2016. Undir hans stjórn enduðu Englendingar í 4. sæti á HM 2018 og 2. sæti á EM 2021. 

Englendingar eru líka komnir í átta liða úrslit HM í Katar eftir 3-0 sigur á Senegölum. Enska liðið mætir heimsmeisturum Frakklands á laugardagskvöldið.

Samningur Southgates við enska knattspyrnusambandið rennur út eftir EM 2024 en framtíð hans er í óvissu. Enskir fjölmiðlar greina samt frá því að enska knattspyrnusambandið vilji halda Southgate í starfi sama þótt England tapi fyrir Frakklandi á laugardaginn.

Hinn 52 ára Southgate hefur stýrt enska landsliðinu í áttatíu leikjum. Liðið hefur unnið 49 þeirra, gert átján jafntefli og tapað þrettán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×