Guðni greindi Evrópuráðinu frá því sem hann vildi að yrði rætt á leitogafundinum sem haldinn verður í maí á næsta ári hér á landi.
Hann sagði Ísland orðið fjölbreyttara en það hafi áður verið og bauðst til þess að greina öðrum þjóðum frá því hvernig mætti komast nær jafnrétti kynja. Þó væri enn vinna fyrir höndum á Íslandi þrátt fyrir að þjóðin hefði þegar náð langt í þeim efnum.
Einnig lagði hann áherslu á nauðsyn þess að Evrópuráð myndi einblína á hvernig vernda megi alla.
„Mannréttindi, frelsi og löggjöf eru lögmál sem við verðum að verja. Heimurinn sem við búum í í dag, þar sem við sjáum hrottalega árásarhneigð, ég þarf ekki að minna ykkur á stríðið í Úkraínu eftir innrás Rússa, ætti að minna okkur á að smærri þjóðir treysta á þessi lögmál. Lögmálin sem umlykja grunn Evrópuráðsins, mannréttindi, löggjöf og frelsi fyrir alla,“ sagði Guðni.
Forsetinn sagðist einnig hugsi yfir því hvernig styrkur þjóða og leiðtoga væri skilgreindur. Það sem ætti að skilgreina styrk væri meðal annars að hugsa um aðra.
„Það vekur einnig áhyggjur hjá mér þegar ég heyri svokallaða sterka leiðtoga tala um heiður og reisn, að heiður og reisn þurfi að verja. Ég myndi frekar segja, tölum um heiður og reisn þegar þú hefur séð almenningi fyrir góðri heilbrigðisþjónustu og menntun. Tölum um reisn þegar mannréttindi eru virt í landi þínu og tölum um reisn þegar nágrannaþjóðir þurfa ekki að óttast þig,“ sagði Guðni.