Fótbolti

Systir Ronaldos grátbiður hann að hætta í landsliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo þurfti að bíta í það súra epli að byrja á varamannabekknum gegn Sviss í gær.
Cristiano Ronaldo þurfti að bíta í það súra epli að byrja á varamannabekknum gegn Sviss í gær. getty/Justin Setterfield

Systir Cristianos Ronaldo hefur grátbeðið hann um að hætta í portúgalska landsliðinu.

Fernando Santos, landsliðsþjálfari Portúgals, skellti Ronaldo á bekkinn fyrir leikinn gegn Sviss í sextán liða úrslitum HM í Katar í fyrradag. Sú ákvörðun margborgaði sig því Goncalo Ramos, sem kom inn í byrjunarliðið fyrir Ronaldo, skoraði þrennu í 6-1 sigri Portúgala.

Fjölskylda Ronaldos stendur alltaf þétt við bakið á honum og var eins og við mátti búast ósátt við ákvörðun Santos. Systir hans, Katia Aveiro, birti færslu á samfélagsmiðlum þar sem hún sagði honum að koma aftur heim.

„Ég vil virkilega að hann komi aftur heim og yfirgefi landsliðið til að hann geti setið við hliðina á mér og ég geti faðmað hann að mér, sannfært hann um að allt verði í lagi, minnt hann á hverju hann hefur áorkað og hvaðan hann kom,“ skrifaði Katia.

„Ég vil ekki lengur að hann sé þarna. Við höfum þjáðst nóg og smámennin munu aldrei vita hversu stór þú ert. Komdu heim þar sem fólkið skilur þig, umvefur og sýnir þakklæti.“

Ronaldo kom inn á sem varamaður þegar sextán mínútur voru eftir af leiknum í fyrradag. Þetta var 195. landsleikur hans. Í þeim hefur hann skorað 118 mörk sem er heimsmet.

Portúgal mætir Marokkó í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×