Fótbolti

Tileinkaði nýlátnum vini mörkin tvö gegn Wales

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marcus Rashford hefur skorað þrjú mörk á HM í Katar.
Marcus Rashford hefur skorað þrjú mörk á HM í Katar. getty/Jean Catuffe

Marcus Rashford tileinkaði mörkin tvö sem hann skoraði fyrir enska landsliðið gegn því velska nýlátnum vini sínum. England vann leikinn, 3-0, og tryggði sér þar með sigur í B-riðli.

Gareth Southgate gerði fjórar breytingar á byrjunarliði Englands frá jafnteflinu við Bandaríkin. Meðal þeirra sem kom inn í byrjunarliðið var Rashford og hann þakkaði traustið með tveimur mörkum. Það fyrra skoraði hann með skoti beint úr aukaspyrnu. Hann fagnaði því með því að fara niður á hnén og benda til himins.

Rashford gerði þetta til heiðurs vini sínum, Garfield Hayward, sem lést á sunnudaginn eftir langa baráttu við krabbamein.

„Því miður missti ég vin minn fyrir tveimur dögum. Hann glímdi lengi við krabbamein. Ég er ánægður að hafa skorað fyrir hann,“ sagði Rashford eftir leikinn. „Hann var alltaf mikill stuðningsmaður minn, frábær náungi og ég er ánægður að hann kom inn í líf mitt.“

Rashford hefur skorað þrjú mörk á HM og er markahæstur á mótinu ásamt Frakkanum Kylian Mbappé, Hollendingnum Cody Gakpo og Ekvadoranum Enner Valencia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×