Fótbolti

Sepp Blatter segir að FIFA hafi gert mistök með því að láta Katar fá HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sepp Blatter er fyrrum forseti FIFA.
Sepp Blatter er fyrrum forseti FIFA. Vísir

Fyrrum forseti FIFA og sá sem sat í forsetastólnum þegar Katar fékk heimsmeistaramótið í fótbolta viðurkennir nú tólf árum seinna að Alþjóða knattspyrnusambandið hafi gert mistök.

Sepp Blatter var forseti FIFA þegar Katar fékk HM árið 2010. Hann sagði blaðamanni hjá svissneska miðlinum Tages Anzeiger að „Katar hafi verið mistök“ og að „sú ákvörðun hafi verið slæm“ eins og hann orðað það þar.

Heimsmeistaramótið í Katar hefst eftir tólf daga en það þurfti að færa það inn á mitt keppnistímabil og inn í nóvember og desember vegna þess að hitinn í Katar var of mikill yfir sumartímann.

Ákvörðunin kom gríðarlega á óvart á sínum tíma og síðan hafa verið stanslausar fréttir af spillingu og mannréttindabrotum í tengslum við undirbúning mótsins í Katar.

Ásakanir er um að meðlimir framkvæmdanefndar FIFA hafi verið keyptir því ekkert vit hafi verið í því að svo lítil þjóð sem býr við svo krefjandi aðstæður yfir sumartímann geti haldið eitt stærsta íþróttamót heims.

Blatter var forseti FIFA í sautján ár en hann lenti sjálfur í spillingamálum sem kostuðu hann forsetastólinn. Hann var sýknaður af spillingu í svissneskum rétti í júní en saksóknari hefur áfrýjað því.

„Þetta er of lítil þjóð til að halda HM. Fótboltinn og heimsmeistaramótið er of stórt fyrir Katar,“ sagði Sepp Blatter og benti líka á það að frá 2012 hafi reglugerðum verið breytt við úthlutun sem þessa þar sem mannréttindi og samfélagsmál skipta mun meira máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×