Fótbolti

AC Milan áfram í Meistaradeildinni eftir stórsigur á Salzburg

Smári Jökull Jónsson skrifar
Junior Messias og Oliver Giroud fagna í kvöld.
Junior Messias og Oliver Giroud fagna í kvöld. Vísir/AP

AC Milan tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar eftir 4-0 sigur á Red Bull Salzburg í úrslitaleik liðanna um sæti í útsláttarkeppninni.

Fyrir leikinn í kvöld munaði aðeins einu stigi á liðunum þar sem Ítalirnir voru með einu stigi meira en austurríska liðið. Það var þó aldrei spurning hvor aðilinn var sá sterkari í kvöld.

Á 14.mínútu leiksins kom fyrsta markið þegar hinn franski Olivier Giroud skoraði með skalla eftir sendingu frá Sandro Tonali.

Staðan í hálfleik var 1-0 en ítölsku risarnir gerðu út um leikinn strax í upphafi síðari hálfleiks. Rade Krunic kom Milan í 2-0 á 46.mínútu og Giroud skoraði sitt annað mark þegar hann kom ítölsku meisturunum í 3-0 á 57.mínútu.

Á lokamínútu leiksins innsiglaði Junior Messias svo stórsigur AC Milan sem verður því í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu á mánudaginn.

Red Bull Salzburg hélt 3.sæti riðilsins þrátt fyrir tapið og fer því í Evrópudeildina. Dinamo Zagreb hefði farið uppfyrir þá með sigri gegn Chelsea í kvöld en þar hafði enska liðið 2-1 sigur með mörkum frá Raheem Sterling og Denis Zakaria.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×