Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.
Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Hvað hún breytist hratt og hvernig allt getur haft áhrif á hana frá meme-um til myndlistar.
Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Uppáhalds flíkin mín er VHS spólu-kjóllinn sem ég og vinir mínir bjuggum til fyrir tónleika með Sykur.
Ég fór um allan bæ að ná í vídeóspólur og smalla þær á stéttinni til að ná í filmurnar inn í og festa þær á net.
Ég fékk svo mikinn innblástur í ferlinu og úr varð listaverk. Annars þykir mér vænst um þær flíkur sem ég hef hannað og búið til með hæfileikafólki fyrir tónleika eða aðra stóra viðburði.
Ég hef verið svo heppin að vinna með ótrúlegu fólki sem gerir outfit drauma mína að veruleika.
Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Það tekur mig ekki langan tíma að velja föt dags daglega en þegar ég hef mig til fyrir alvöru tekur það marga klukkutíma. Stundum byrja ég að hugsa um heildarsýnina og stemningunni sem ég vil geisla tveimur sólarhringum fyrir turnout.
Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Post scene queen gamer rockstar.
Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Ég held að stíllinn minn í kjarnanum hafi ekki breyst frá því ég var fimmtán ára en það sem hefur áhrif á mig breytist með árunum.
Þegar ég var fimmtán ára þá bjó ég í Barcelona og var þar í skóla. Ég var mikið ein á þessum tíma sem var alveg stórkostlegt.
Ég labbaði borgina endilanga marga klukkutíma eftir skóla á hverjum degi og öll hverfin voru svo mismunandi, öll með sína sérstöðu.
Með því að spegla mig í borginni lærði ég að þekkja sjálfa mig mjög vel.
Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Ég elska að sjá goth mall rats og skinkur í Kringlunni.
Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Ég fer ekki í flík sem gefur mér ekkert.
Það skiptir í alvöru engu máli í hverju þú ert heldur bara hvernig það lætur þér líða.
Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Ég held það séu fyrstu Doc Martens skórnir mínir sem ég átti þegar ég var 20-23 ára, það var bara svo rosalegt tímabil með mörgu góðu rugli.
Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Prufa sig áfram endalaust og skera undan skömminni við fæðingu.