Fótbolti

Porto hirti toppsætið og Leverkusen rændi Evrópudeildarsætinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Atlético Madrid er úr leik.
Atlético Madrid er úr leik. Diogo Cardoso/DeFodi Images via Getty Images

Porto vann sterkan 2-1 sigur er liðið tók á móti Atlético Madrid í lokaumferð B-riðils Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Á sama tíma gerðu Bayer Leverkusen og Club Brugge markalaust jafntefli, en þau úrslit þýða að Porto endar í efsta sæti riðilsins og Atlético Madrid í því neðsta.

Porto og Club Brugge höfðu þegar tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum keppninnar fyrir leiki kvöldsins, en þrátt fyrir það var nóg undir þegar flautað var til leiks í leikjunum tveim.

Enn var óvíst hvort Porto eða Club Brugge myndi tryggja sér efsta sæti riðilsins og þá var einnig enn óráðið hvort Bayer Leverkusen eða Atlético Madrid myndi vinna sér inn sæti í útsláttakeppni Evrópudeildarinnar.

Fór það svo að lokum að Porto vann öruggan 2-1 sigur gegn Atlético Madrid þar sem Mehdi Taremi og Stephen Eustaquio sáu um markaskorun heimamanna í fyrri hálfleik áður en gestirnir frá Madrid minnkuðu muninn í uppbótartíma venjulegs leiktíma þegar Ivan Marcano varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.

Í hinum leik riðilsins gerðu Club Brugge og Bayer Leverkusen markalaust jafntefli, sem þýðir að Porto endar sem sigurvegari riðilsins með 12 stig og Club Brugge fer með portúgalska liðinu í 16-liða úrslit með 11 stig. Bayer Leverkusen lyfti sér upp í þriðja sæti riðilsins með jafnteflinu og er því á leið í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar, en Atlético Madrid situr eftir með sárt ennið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×