Hann bætti því við að allt í allt hafi Rússar nú gert 4500 eldflaugaárásir og rúmlega átta þúsund loftárásir á landið. Forsetinn ávarpaði þjóð sína á götu úti í Kænugarði og stóð hann yfir flaki af stórum dróna sem hafði verið skotinn niður yfir borginni. Um er að ræða íranska Shahed drónann sem Rússar eru sagðir hafa notað í miklu mæli í stríðinu þrátt fyrir að bæði þeir og Íranir sjálfir neiti þeim ásökunum.
Rússar hafa sett aukinn kraft í að ráðast á almenna borgara síðustu vikur auk þess sem orkuinnviðir Úkraínu hafa verið gerðir að greinilegu skotmarki, nú þegar vetur er að skella á.