Innherji

Áforma að bjóða fjárfestum að kaupa allt að 40 prósenta hlut í Ljósleiðaranum

Hörður Ægisson skrifar
Ljósleiðarann vinnur meðal annars að uppbyggingu á nýjum landshring til að svala þörf á fleiri þráðum og víðfeðmara kerfi en núverandi NATO-strengur býr yfir. Það er ekki síst vegna uppbyggingar 5G-farsímakerfa.
Ljósleiðarann vinnur meðal annars að uppbyggingu á nýjum landshring til að svala þörf á fleiri þráðum og víðfeðmara kerfi en núverandi NATO-strengur býr yfir. Það er ekki síst vegna uppbyggingar 5G-farsímakerfa. Ljósleiðarinn

Stjórn Ljósleiðarans, sem er alfarið í eigu Orkuveitu Reykjavíkur (OR), hefur samþykkt að auka hlutafé félagsins þar sem stefnt er að því að selja hina nýju hluti til utanaðkomandi fjárfesta. Gert er ráð fyrir að eignarhlutur Orkuveitunnar verði ekki minni en 60 prósent að loknu hlutafjárútboðinu.

Í tilkynningu Ljósleiðarans til Kauphallarinnar kemur fram að nýju hlutirnir verði boðnir „langtímafjárfestum sem hafa almannahagsmuni að leiðarljósi,“ meðal annars lífeyrissjóðum, tryggingafélögum og sjóðastýringarfyrirtækjum. Stefnt er að því að klára hlutafjáraukningu félagsins fyrir fyrsta fjórðung á næsta ári.

Innherji hafði fyrst greint frá því í byrjun september að Ljósleiðarinn og Orkuveitan hefðu til skoðunar að hleypa inn utanaðkomandi fjárfestum inn í hluthafahóp fjarskiptafyrirtækisins. Undirbúningur fyrir því að ráðast í hlutafjárútboð hefur staðið yfir frá því í sumar.

Samþykkt stjórnar Ljósleiðarans um hlutafjáraukninguna er með fyrirvara um staðfestingu eigenda OR sem eru Reykjavíkurborg, sem fer með 93,5 prósenta hlut, en einnig Akraneskaupstaður og Borgarbyggð.

Áform Ljósleiðarans gera ráð fyrir að hlutafé félagsins verði hækkað um allt að 4,33 milljarða króna að nafnvirði. Stjórn Ljósleiðarans mun ákvarða útboðsgengi og greiðslukjör hinna nýju hluta og í hvaða áföngum heimildin verður nýtt en hún fellur niður í árslok 2024.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík og formaður borgarráðs, hefur sagt við Innherja að hún sé „í prinsippinu“ fylgjandi því að skoða breytingar á eignarhaldi opinberra fyrirtækja í samkeppnisrekstri. Slíkar breytingar taki þó tíma og hugmyndir um breytt eignarhald á Ljósleiðaranum hafi ekki enn komið formlega á borð Reykjavíkurborgar.

„Aðalatriðið í kerfisbreytingunni sem framkvæmdastjóri Ljósleiðarans er að leggja til er að flýta sér hægt og aldrei hraðar en eigandinn,“ sagði Þórdís í samtali við Innherja í síðasta mánuði.

Á fyrri árshelmingi jukust tekjur Ljósleiðarans um 12 prósent og voru samtals 1.818 milljónir. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var um 1.280 milljónir en sé litið til heildarniðurstöðunnar var hins vegar tæplega 72 milljóna króna tap á rekstrinum. Eigið fé félagsins var um 11,3 milljarðar um mitt árið og eiginfjárhlutfallið 37 prósent.

Ljósleiðarinn greindi fyrst frá áformum um hlutafjáraukningu eftir að fyrirtækið samdi við utanríkisráðuneytið um afnot af tveimur þráðum í ljósleiðarastreng Atlantshafsbandalagsins, svonefndum NATO-streng, sem liggur hringinn í kringum Ísland og til Vestfjarða.

Ljósleiðarann vinnur jafnframt að uppbyggingu á nýjum landshring til að svala þörf á fleiri þráðum og víðfeðmara kerfi en núverandi NATO-strengur býr yfir. Það er ekki síst vegna uppbyggingar 5G-farsímakerfa en burðarnetið sem tengir saman 5G senda og internetið er ljósleiðaranet.

Þá náði Ljósleiðarinn nýlega samkomulagi við fjarskiptafélagið Sýn um einkaviðræður sem lúta að kaupum á stofnneti Sýnar. Samið hefur verið um kaupverð að fjárhæð 3 milljarðar króna og gert er ráð fyrir 10 ára þjónustusamningi á milli fyrirtækjanna. Samkomulagið var þó gert með fyrirvara um fjármögnun.

Ljósleiðarinn hefur nú þegar gefið út græn skuldabréf að fjárhæð 8,2 milljarðar króna en heildarheimild skuldabréfaflokksins er 15 milljarðar króna.

„Markmið þess að breyta fjármagnsskipan Ljósleiðarans er að vera betur í stakk búin að standa undir því mikilvæga samkeppnishlutverki sem Ljósleiðarinn gegnir á fjarskiptamarkaði. Það hefur breyst og aukist með aðgangi okkar að svokölluðum NATO-streng, og samningum við Farice, Nova og núna síðast við Sýn,“ sagði Erling við Innherja í liðnum mánuði og vísaði þar meðal annars til samkomulags sem náðist við fjarskiptafélagið Nova í sumar um aðgang að tengingum.

Helsti keppinautur Ljósleiðarans er Míla, sem var áður í eigu Símans en hefur nú verið selt til franska sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian. Símasamstæðan hafði ítrekað kvartað yfir því að Ljósleiðarinn hafi notið góðs af eignarhaldi Orkuveitunnar, meðal annars með greiðari aðgangi að lánsfé en ella, og hefur ESA, eftirlitsstofnun EFTA, nú til skoðunar kvartanir Símans um að meinta ólögmæta ríkisaðstoð. Fjarskiptastofa telur hins vegar að fjárhagslegur aðskilnaður borgarfyrirtækjanna tveggja sé í fullu samræmi við lög.

Hjá Orkuveitunni stendur einnig til að hefja undirbúning að hlutafjáraukningu dótturfélagsins Carbfix en eins og fram kom í umfjöllun Innherja fyrir skemmstu hefur fjöldi alþjóðlegra fjárfesta, þar á meðal Credit Suisse og Equinor, lýst yfir áhuga á því að koma að uppbyggingu íslenska nýsköpunarfyrirtækisins. 

Í nýrri fjárhagsspá Orkuveitunnar frá því fyrr í þessum mánuði kom fram að dótturfélög fyrirtækisins, Ljósleiðarinn og Carbfix, áformi að sækja sér samanlagt um 50 milljarða í nýtt hlutafé á næsta ári til að standa undir þeim miklu fjárfestingum sem félögin hafa boðað.


Tengdar fréttir

Ljós­leiðarinn kaupir stofn­net Sýnar á þrjá milljarða króna

Sýn og Ljósleiðarinn undirrituðu í dag samkomulag einkaviðræður og helstu skilmála samninga sem lúta annars vegar að sölu á stofnneti Sýnar til Ljósleiðarans og hins vegar að þjónustusamningi milli aðila til tíu ára. Kaupverðið er þrír milljarðar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×