Innlent

„Ef við gleymum að tala til barna og ung­linga þá staðnar kirkjan“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Drífa Hjartardóttir er forseti kirkjuþings.
Drífa Hjartardóttir er forseti kirkjuþings. Vísir/Vilhelm/Þjóðkirkjan

Kirkjuþing var sett við sérstaka athöfn í þjónustumiðstöð Þjóðkirkjunnar klukkan 10 í morgun. Nýtt tímabil er að hefjast sem mun standa yfir í fjögur ár. Forseti kirkjuþings segir mestu máli skipta að virkja unga fólkið.

Sautján nýir þingfulltrúar koma nú saman í fyrsta sinn á tímabilinu en þingið samanstendur af 29 þingfulltrúum. Þingið fer yfirleitt fram í tveimur lotum á ári, á vorin og á haustin, og stendur yfir í þrjá eða fjóra daga í senn. Það fer meðal annars með fjárstjórnarvald, mótar stefnu kirkjunnar og setur reglur.

Drífa Hjartardóttir forseti kirkjuþings leggur mesta áherslu á æskulýðsmálin.

„Þau eru náttúrulega svo mikilvæg af því að ef við gleymum að tala til barna og unglinga og ungra fjölskyldna þá staðnar kirkjan. Því að kirkjan verður að vera lifandi og við verðum að uppfræða unga sem aldna, en fræðsla fyrir ungt fólk og börn er það mikilvægasta í dag að mínu mati,“ segir Drífa.

Virkja þurfi kirkjuna

Hún segir mikilvægt að kirkjan verði áberandi í samfélaginu; að virkja þurfi kirkjuna.

„Ég vil að kirkjan taki þátt í samfélagsumræðunni. Ef að okkur misbýður eitthvað þá eigum við að skipta okkur af því. Kirkjan er lifandi samfélag og í kirkjunni erum við yfir 200 þúsund og kirkjan hefur margar raddir. Það er ekki ein rödd, hún hefur margar raddir, og þessar raddir verða að fá að heyrast. Ég legg mikla áherslu á það að fólk veigri sér ekki við því að viðurkenna að það sé kristið og vilji taka þátt í kristilegu samfélagi,“ segir Drífa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×