Fótbolti

FIFA segir að stöðvarnar verði að bjóða hærra í HM kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hin bandaríska Megan Rapinoe fagnar hér marki sínu í úrslitaleik HM 2019 en hún var bæði kosin besti leikmaður keppninnar sem og að vera markahæst.
Hin bandaríska Megan Rapinoe fagnar hér marki sínu í úrslitaleik HM 2019 en hún var bæði kosin besti leikmaður keppninnar sem og að vera markahæst. EPA-EFE/IAN LANGSDON

Alþjóða knattspyrnusambandið hefur hafnað mörgum tilboðum í útsendingarétt á heimsmeistarakeppni kvenna í knattspyrnu sem fer fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi næsta sumar.

Ástæðan er einföld. Tilboðin eru of lág. Það er ljóst að sjónvarpsstöðvarnar fá ekki kvennafótboltann lengur á einhverju útsöluverði.

Romy Gai, viðskiptastjóri sambandsins, skoraði á sjónvarpsstöðvarnar til að nýta sér tækifærið sem kvennafótboltinn er nú að bjóða upp á.

1,12 milljarðar manns horfðu á síðasta heimsmeistaramót kvenna árið 2019.

„Þetta snýst ekki um eitthvað verðstríð heldur er þetta aðeins vitnisburður um skort á vilja á þessum sjónvarpsstöðvum til að borga það sem kvennafótboltinn á skilið,“ sagði Romy Gai í viðtali við Bloomberg.

„Áhorfendatölur frá Frakklandi 2019 sýna að það heimsmeistaramót var hvatinn til að kalla fram breytingar á sjónvarpsáhorfi á kvennafótboltann. Við vitum að tækifærið fyrir kvennafótboltann er til staðar og nú er bara að grípa það,“ sagði Gai.

Gai sagði fréttamanni Bloomberg að FIFA hafi hafnað tilboðum frá Ítalíu, Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi en það kom ekki fram um hvaða sjónvarpsstöðvar var að ræða.

HM 2023 hefst 29. júlí en dregið verður í riðla á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×