Umfjöllun og viðtöl: Grindavík 72-80 Valur | Sanngjarn Valssigur í Grindavík í sveiflukenndum leik

Siggeir Ævarsson skrifar
Kiana Johnson, leikmaður Vals, var stigahæsti leikmaður vallarins gegn Grindavík í kvöld en Kiana skoraði 28 stig.
Kiana Johnson, leikmaður Vals, var stigahæsti leikmaður vallarins gegn Grindavík í kvöld en Kiana skoraði 28 stig. Vísir/Daníel

Valur sótti góð tvö stig til Grindavíkur í kvöld í Subway-deild kvenna, lokatölur 72-80. Grindavík leiddi systurpart leiksins en Valskonur komu virkilega ákveðnar inn í seinni hálfleikinn og unnu hann 48-33 og þar með leikinn með 8 stigum.

Grindavíkurkonur voru að spila virkilega vel í fyrri hálfleik, þvinga Valskonur í klaufaleg mistök og að hitta virkilega vel fyrir utan. Heimakonur litu einfaldlega vel út í byrjun og leiddu með 9 stigum eftir fyrsta leikhluta. Þær virtust vera með mjög góð tök á leiknum en körfuboltaleikur er 40 mínútur og smám saman náðu Valskonur að vinna sig inn í leikinn sem varð æsispennandi eftir því sem leið á.

Ólafur Sigurðsson þjálfari Vals hefur eflaust hækkað raustina í hálfleik, enda mætti allt annað lið til leiks hjá gestum í seinni hálfleik. Eftir tvo þrista frá Elmu Dautovic hrukku Valskonur loksins í gang og fóru að spila eins og þær eiga að sér. Grindvíkingar voru í raun algjöru dauðafæri þar að gera útum leikinn en létu kné ekki fylgja kviði og Valskonur gengu á lagið.

Grindavík fór úr því að leiða yfir í að elta sem útheimti mikla orku, stóru skotin sem voru að detta hættu að detta og þriggja stiga nýtingin sem var í hæstu hæðum hrundi. Kiana Johnson fór fyrir endurkomu Valskvenna og galopnaði vörn Grindvíkinga ítrekað, skoraði annað hvort sjálf eða fann samherja sína í fullkomnum færum.

Sanngjarn átta stiga sigur Vals niðurstaðan en Grindvíkingar hljóta að vera ansi svekktar að hafa ekki náð að klára þennan leik af sama krafti og þær byrjuðu hann.

Af hverju vann Valur?

Þær spiluðu bara miklu betur í seinni hálfleik en Grindavík. Andlega hliðin var ekki nógu sterk hjá Grindavík og þær voru í raun sjálfum sér verstar í þessum leik.

Hvað gekk illa?

Grindavík gekk illa að halda í boltann í seinni hálfleik og enduðu með 20 tapaða bolta. Alltof margir af þessum boltum komu eftir lélegar sendingar í þröngum stöðum.

Hverjar stóðu upp úr?

Kiana Johnson fór mikinn í seinni hálfleik og endaði lang stigahæst með 28 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Hún fékk fínan stuðning frá bæði Hallveigu og Dagbjörtu sem settu stóru skotin þegar á reyndi.

Elma Dautovic endaði stigahæst heimakvenna með 20 stig, en hún virkar oft ansi vilt í sókninni. Ef þjálfarar Grindavíkur ná að aga hennar leik ögn betur til gæti hún orðið mjög illviðráðanlegur leikmaður í þessari deild, bæði stór og með fínt skot. Þá átti Thea Lucic Jónsdóttir góðan dag fyrir utan eins og svo oft áður, 4/8 í þristum.

Hvað gerist næst?

Grindavík er þá áfram með einn sigur í deildinni og þær eiga stórt verkefni fyrir höndum á sunnudaginn þegar þær sækja Keflavík heim.

Valskonur eru að komast í góðan takt, komnar með þrjá sigra og eiga leik sama kvöld heima gegn Fjölni.

„Við þurfum að vera andlega sterkari“ 

Bryndís Gunnlaugsdóttir, aðstoðarþjálfari Grindavíkur (fyrir miðju myndar)Ingibergur Jónasson

Bryndís Gunnlaugsdóttir, aðstoðarþjálfari Grindavíkur, sagði að hennar konur hefðu misst aðeins hausinn þegar Valur kom með áhlaup á þær í þriðja leikhluta, en vildi þó meina að þetta hafi verið einn besti leikur Grindavíkur það sem af er hausti.

„Við komum tilbúnar byrjun í 3. leikhluta, held að við höfum sett þarna fyrstu 8 stigin og við vorum alveg með trú á þessu. En svo kom Valur með gott „run“ og þá bara misstum við svolítið hausinn og það var eiginlega mjög svekkjandi vegna þess að ég held að þetta sé einn besti leikur sem við erum búnar að spila í vetur.“

Bryndís var sum sé alls ekki buguð þrátt fyrir svekkjandi tap og sagði að hennar konur myndu taka margt jákvætt úr þessum leik og ef spilamennskan heldur svona áfram fari sigrarnir að tikka inn.

„Já við tökum helling jákvætt og það sem mér finnst kannski mikilvægast er það að hlutirnir sem við erum að klikka á eru hlutir sem við höfum stjórn á. En það var hausinn sem klikkaði. Við förum að svekkja okkur á dómgæslunni, hlupum ekki strax til baka, Valur refsaði og skoraði. Við töpuðum boltanum og fórum að svekkja okkur í staðinn fyrir að verjast strax, Valur skoraði. Þetta eru allt hlutir sem við eigum að geta lagað. Við þurfum að vera andlega sterkari þegar hitt liðið er að fara að taka áhlaup svo að við getum haldið út leikinn. En það sem er jákvætt er að þetta eru hlutir sem við getum lagað og unnið í. Við spiluðum fleiri góðar mínútur í dag en í síðasta leik og loksins erum við að sjá þessar framfarir. Ég hef trú á því að fljótlega fari sigrarnir að detta því að framfararnir eru að koma.“

Grindvíkingar hafa verið að spila á frekar fáum leikmönnum í upphafi móts og misstu Örnu Sif Elíasdóttur í meiðsli fyrir síðasta leik. Þær fengu þó góðan og reyndan leikmann til að leysa hana af í teignum í kvöld, en Helga Rut Hallgrímsdóttir hefur dregið fram skóna á ný. Helga var í lykilhlutverki hjá Grindavík fyrir um áratug síðan, en skilaði tæpum 6 mínútum í kvöld og kom af krafti inn í leikinn, með baráttu og reynslu. Það hlýtur að vera mikilvægt fyrir Grindavík að fá svona þungavigtarleikmenn aftur af stað?

„Það er auðvitað frábært að fá þessa reynslubolta inn í liðið. Fá manneskju sem er tilbúin að berjast og fórna sér fyrir klúbbinn. Ég bara vona að hún mæti í fleiri leiki, hún og Amanda eru frábært teymi.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira