Forystufólk fjölmennustu aðildarfélaga Alþýðusambandsins, Eflingar og VR ásamt formanni Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins gengu út af þingi þess í gær og drógu framboð sín til forystustarfa til baka. Þrátt fyrir þetta mættu tugir fulltrúa VR á þingið í dag þar sem fyrsta mál á dagskrá var að taka afstöðu til tillögu um að fresta þinginu og þar með kjöri nýrrar forystu fram á næsta vor.
Sú tillaga var samþykkt með 183 atkvæðum gegn tuttugu. Kristján Þórður Snæbjarnarson mun því leiða ASÍ fram yfir komandi kjarasamninga.

„Við þurfum að reyna að sameina hópinn hjá okkur. Þurfum að tryggja að Alþýðusambandið verði sterk heild. Til þess þurfum við tíma,“ sagði Kristján Þórður eftir að þinginu hafði verið frestað í dag. Þingið hafi ákveðið að gefa tíma til þessa samtals.
Kristján Þórður tók við forsetaembættinu þegar Drífa Snædal sagði af sér hinn 10. ágúst vegna átaka og ásakana frá forystu VR og Eflingar. Eftir það bauð formaður VR sig fram í forsetaembættið og formaður Eflingar í embætti fyrsta varaforseta sem þau drógu til baka í gær.
Þetta 45. þing Alþýðusambandsins fer örugglega í sögubækurnar sem eitt mesta átakaþing þessa rúmlega hundrað ára gamla sambands. Spurningin er hvernig kemur þetta út fyrir komandi kjaraviðræður.

„Við höfum ekki tekið ákvörðun um samningamálin. Samningsumboðið liggur hjá aðildarfélögunum. Það verður þannig áfram. Við erum ekki að breyta því hér,“ segir starfandi forseti ASÍ.
Vonandi leiði samtal innan hreyfingarinnar til þess að félögin nái saman. Að minnsta kosti varðandi viðræður við stjórnvöld í tengslum við komandi samninga.
Er ekki slæmt núna þegar samningaviðræður eru að hefjast að Alþýðusambandið mæti kannski halt til leiks?
„Það er ekki óskastaða að vera sundruð á þeim tímapunkti,“ segir Kristján Þórður.
Samningaviðræður væru hafnar og fari á fullt á næstu vikum. Greina mætti áherslumun á kröfum einstakra sambanda í viðræðum við atvinnurekendur.
„En það er samt sem áður hægt að sjá ákveðna þræði í gegnum þær flestar hverjar. En áferðarmunurinn er þó nokkur samt sem áður,“ segir Kristján Þórður.

Ólöf Helga Adolfsdóttir sem beið lægri hlut í formannskjöri í Eflingu í febrúar og var í framboði til forseta ASÍ nú hefði viljað að þinginu hefði verið fram haldið og kosið um forystuna. Æskilegast væri að sættir tækjust þannig að þessi stóru félög héldu áfram að starfa innan Alþýðusambandsins.
Það munar auðvitað um þau þar?
„Jú algerlega. En það er alveg á hreinu að það er ekki gert einhliða. Báðir aðilar þurfa að vera tilbúnir til að koma að borðinu,“segir Ólöf Helga.