Á föstudaginn var mættu Íslandsmeistarar Vals sínum fyrrum nágrönnum í Fram en leikið var í Úlfarsárdal í Grafarholti. Fór það svo að Fram vann þriggja marka sigur í hörkuleik en um var að ræða fyrsta tap leik Vals á leiktíðinni. Farið var yfir leikinn í síðasta þætti Seinni bylgjunnar.
„Fyrir leikinn var Valur eina liðið sem hafði sigrað þá og þeir eru búnir að taka engin smá lið. Það er mikill styrkur í þessu liði, við erum búnir að sjá það. Þeir spila á mörgum mönnum, margir spennandi leikmenn að koma upp. Mér finnst allt spennandi við Fram þessa dagana; umhverfið, leikmennirnir, það er mikil stemning og góð blanda,“ sagði Logi Geirsson um lið Fram.
„Frammarar sýndu alvöru karakter, þeir kláruðu þetta vel og eru ógeðslega flottir,“ bætti Ásgeir Örn Hallgrímsson við.
Sjá má Stefán Árna, Loga og Ásgeir Örn fara yfir frammistöðu Fram í spilaranum hér að neðan. Þá var sérstaklega rætt um Þorstein Gauta Hjálmarsson eftir að farið var yfir leikinn í heild.