Í myndskeiðinu, sem Reynolds birti á Twitter í kvöld, segir hann áhorfendum að hann hafi unnið baki brotnu undanfarið að því að semja handritið að þriðju kvikmyndinni um Deadpool, enda þurfi að tjalda öllu til fyrir innkomu Deadpool í sagnaheim Marvel (e. Marvel cinematic universe).
Hann segir að honum og meðhöfundum hans hafi ekkert orðið ágengt fyrir utan það að hafa fengið eina hugmynd og þá gengur Ástralinn geðþekki Hugh Jackman inn í rammann. Reynold spyr Jackman hvort hann vilji leika Wolverine einu sinni enn. „Já, alveg eins, Ryan,“ svarar Jackman, aðdáendum teiknimyndasögukvikmynda til mikillar ánægju.
Jackman hefur leikið Wolverine allt frá því að fyrsta kvikmyndin um X-mennina kom út árið 2000 í alls níu kvikmyndum í fullri lengd. Nú síðast lék hann Wolverine í kvikmyndinni Logan árið 2017 og þá var tilkynnt að það yrði síðasta skiptið sem hann sýndi klærnar á stóra tjaldinu.
Í lok myndskeiðsins sem Reynolds birti kom dagsetningin 9.6.24 fram og því má leiða að því líkur að þriðja kvikmyndin um Deadpool komi í kvikmyndahús vestanhafs þann 6. september árið 2024. Þegar myndin kemur út mun Jackman því hafa verið Wolverine í heil 24 ár.