Þættirnir fjalla um ævi og störf Elísabetar annarrar Bretadrottningar og fjölskyldu hennar. Þættirnir, sem sýndir eru á Netflix, hófu göngu sína árið 2016 og hafa reynst afar vinsælir.
Sem kunnugt er lést Elísabet drottning á dögunum. Við andlát hennar virðist hafa skapast mikill áhugi á ævi hennar, sem birtist meðal annars í því að fyrsta þáttaröð The Crown skaust aftur á topp tíu lista Netflix yfir þá þætti sem mest var horft á í vikunni sem drottningin lést.
Netflix hefur nú gefið út að fimmta þáttaröðin, sem beðið hefur verið af meiri eftirvæntingu en venjulega, fer í sýningu þann 9. nóvember næstkomandi. Framleiðendur þáttanna hafa lítið vilja gefa upp um efni þáttaraðarinnar.
Ljóst er þó, miðað við hvar skilið var við í lok fjórðu þáttaraðar og þeirra nýju hlutverka sem bætast við nú, að umfjöllunarefnið verður tíundi áratugurinn. Umræddur áratugur reyndist mjög stormasamur fyrir konungsfjölskylduna. Einkum vegna andláts Díönu prinsessu sem lést af slysförum en einnig vegna tíðra skilnaða innan konungsfjölskyldunnar.
Sú breyting verður einnig frá síðustu þáttaröð að nýjir leikarar taka við hlutverkum helstu persónu þáttanna. Þannig mun Imelda Staunton taka við af Oliviu Colman sem Elísabet drottning. Jonathan Pryce tekur við af Tobias Menzies sem Filippus, eiginmaður Elísabetar.
Þá taka nýjir leikarar einnig við sem Díana prinsessa og Karl prins, sem nú er orðinn konungur. Dominic West leikur Karl og Elizabeth Debicki leikur Díönu.
Þá mun Salim Daw og Khalid Abdalla leika feðgana Mohamed Al-Fayed og Dodi Al-Fayed, en sá síðarnefndi lést ásamt Díönu í bílslysi í París árið 1997.