Fótbolti

Yfirgaf FH eftir bílslys en er nú nýr þjálfari FCK

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jacob Neestrup, fyrrum leikmaður FH, er tekinn við þjálfarastarfinu hjá FC Kaupmannahöfn.
Jacob Neestrup, fyrrum leikmaður FH, er tekinn við þjálfarastarfinu hjá FC Kaupmannahöfn. Lars Ronbog / FrontZoneSport via Getty Images

FC Kaupmannahöfn, lið þriggja íslenskra leikmanna, hefur sagt upp þjálfara liðsins Jess Thorup. Fyrrum leikmaður FH tekur við stjórnartaumunum.

Kaupmannahöfn hefur ekki farið vel af stað í dönsku deildinni í vetur en liðið vann danska meistaratitilinn undir stjórn Thorup í fyrra.

Því miður höfum við ekki séð þá framþróun og stöðugleika í leik liðsins á þessari leiktíð sem FCK getur sætt sig við og munum þess vegna slíta samningi við Jess Thorup í dag. segir í tilkynningu frá FC Kaupmannahöfn.

Aðstoðarþjálfari Thorups, Jacob Neestrup, hefur verið ráðinn sem nýr þjálfari félagsins í hans stað. Neestrup er aðeins 34 ára gamall og hefur verið aðstoðarþjálfari FCK frá árinu 2020. Áður þjálfaði hann aðallið Viborg frá 2019 til 2020 en hann hafði verið unglingaliðsþjálfari hjá FCK frá 2013 til 2019.

Neestrup lék með FH hér á landi sumarið 2010 en lék aðeins sex leiki þar sem hann glímdi við meiðsli. Strax og hann náði sér af meiðslunum lenti hann í bílslysi hér á landi og komst aldrei almennilega af stað. Hann yfirgaf FH svo um veturinn.

Hann hætti svo knattspyrnuiðkun árið 2011, aðeins 23 ára að aldri, og dembdi sér í þjálfun.

Hann verður nú nýr þjálfari FC Kaupmannahafnar en með liðinu leika þeir Ísak Bergmann Jóhannesson, Hákon Arnar Haraldsson og Orri Steinn Óskarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×