Drottningin átti alls rúmlega þrjátíu corgi-hunda á ævi sinni en hún fékk Muick og Sandy árið 2021. Hundarnir áttu að hjálpa Elísabetu að syrgja eiginmann sinn, Filippus, sem hafði látist nokkrum dögum áður.
Hundarnir munu nú flytja í Royal Lodge þar sem Andrés býr ásamt eiginkonu sinni fyrrverandi, Söru. Samkvæmt BBC var áhugi á hundum eitt af því sem gerði Elísabetu og Söru afar nánar.

Drottningin fékk sinn fyrsta corgi-hund, Susan, árið 1944 en þá var hún átján ára gömul. Margir þeirra hunda sem hún átti yfir ævina voru afkomendur Susan.
Einn annar hundur, Candy, var í eigu drottningarinnar er hún lést en ekki kemur fram í grein BBC hvað verður um hann.