22,5 prósenta hlutur úr Íslandsbanka var seldur í lokuðu útboði í lok mars, mikil umræða skapaðist í apríl með tilheyrandi mótmælum á Austurvelli, skýrsla var þá boðuð í júní, en hefur svo dregist fram í júlí, svo ágúst, svo september og nú segir Ríkisendurskoðun að gera megi ráð fyrir henni fyrir lok mánaðar. Skýringin sem veitt er á töfinni eru annir Ríkisendurskoðunar við önnur verkefni, og svo að úttektin sjálf sé umfangsmeiri en menn gerðu sér grein fyrir í upphafi.
Hvað finnst þér um þá töf sem hefur orðið?
„Mér finnst nú hafa verið færð ágæt rök fyrir því að rannsóknin taki að jafnaði þennan tíma. Kannski vorum við með óraunhæfar væntingar í upphafi. Þetta bara kemur þegar þetta kemur,“ segir Bjarni í samtali við fréttastofu.
Hefurðu haft ávæning um efni skýrslunnar?
„Nei, ég hef ekki innsýn í það en ég held að svona margra mánaða vinna hljóti að skila góðri yfirsýn yfir það sem máli skiptir.“
Er eitthvað stress fyrir henni?
„Neinei, ég tel að það sem við gerðum í ráðuneytinu hljóti að standast ágætlega skoðun. Við höfum auðvitað haft tilefni til að fara aftur yfir það í sumar og verið í samskiptum við ríkisendurskoðun vegna þess, en það eru margir aðrir þátttakendur í þessu ferli sem ég hef ekki jafngóða yfirsýn yfir.“
Bjarni vonast til þess að ráðuneytið fái uppbyggilegar ábendingar í skýrslunni. Grundvallaratriðið sé hvort lögum hafi verið fylgt og góðum stjórnsýsluvenjum. Fjármálaráðherrann segir að það hafi skipt miklu máli fyrir ríkissjóð að fá inn þá fimmtíu milljarða sem fengust við söluna, enda hafi með þeim verið hægt að fjármagna ýmis verkefni án lántöku.
„Og ég er enn þeirrar skoðunar að íslenska ríkið eigi að selja þennan rúmlega 100 milljarða hlut sem við eigum enn þá í Íslandsbanka. Við eigum að taka þá peninga og við eigum að setja þá í vegi, í innviðafjárfestingar, í flutningskerfi raforku og aðra innviði sem gera Ísland að samkeppnishæfara landi,“ segir Bjarni.