Innlent

Taka saman gögn til að bera saman skipanir án auglýsinga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Katrín Jakobsdóttir vísar á Lilju varðandi skipan Höru Þórisdóttur í embætti þjóðminjavarðar.
Katrín Jakobsdóttir vísar á Lilju varðandi skipan Höru Þórisdóttur í embætti þjóðminjavarðar. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ætlar að láta taka saman tölfræði í þeim tilgangi að skoða hvort í vöxt færist að ráðherrar beiti heimild til að flytja starfsfólk til milli embætta. Þetta sagði Katrín í samtali við fréttastofu í morgun.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur mátt sæta harðri gagnrýni vegna skipunar Hörpu Þórisdóttur í stöðu þjóðminjavarðar. Skipunin var án auglýsingar. Lilja segir Hörpu hæfa í starfið og vísar til lagaheimildarinnar.

„Það er auðvitað svo að samkvæmt lögum er meginreglan að auglýsa laus störf. En hins vegar er heimild til tilflutnings sem hefur lengi verið í lögum. Ég hef ákveðið að taka saman tölfræðina hvort það sé að færast í vöxt að ráðherrar beyti tilflutningsheimildinni,“ segir Katrín.

Full ástæða sé til að velta fyrir sér kostum og göllum við hvora aðferð fyrir sig.

„Ég hef sjálf nýtt tilflutningsheimild og ég tel hana mikilvæga til að tryggja hreyfanleika. En að auglýsa störf tryggir jafnræði allra gagnvart þeim störfum sem losna.“

Nokkur dæmi hafa komið upp undanfarið þar sem skipað er í embætti án auglýsingar.

„Ég held það sé mikilvægt að taka saman þessar tölur yfir eitthvað tímabil þannig að við getum lagt mat á hvort þetta sé að færast í vöxt og tekið umræðuna á þeim grunni.“


Tengdar fréttir

Harpa sé hæf og staða Þjóðminjavarðar því ekki auglýst

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, safnaráðherra, hefur mátt sæta harðri gagnrýni vegna skipunar í stöðu Þjóðminjavarðar, án auglýsingar. Hún vísar gagnrýni á bug, vísar til lagaheimildar og segir Hörpu Þórisdóttur virkilega hæfa í starfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×