Í ár er það C-riðill sem fær þann heiður að vera dauðariðill Meistaradeildar Evrópu. Ásamt Viktoria Plzen í riðlinum eru Þýskalandsmeistarar Bayern München, spænska stórveldið Barcelona og silfurlið Ítalíu; Inter Milan.
Það er því ljóst að liðsmenn Viktoria Plzen eiga erfitt verk fyrir höndum. Liðið situr í 55. sæti styrkleikalista UEFA, en mun berjast við liðin í 23. sæti (Inter), sjötta sæti (Barcelona) og efsta lið styrkleikalistans (Bayern München).
Þrátt fyrir það virðast leikmenn liðsins meira en spenntir fyrir komandi verkefni. Kannski ekki skrýtið þar sem það er ekki á hverjum degi sem leikmenn í tékknesku deildinni fá að spreyta sig gegn bestu liðum Evrópu.
Félagið birti myndband af viðbrögðum liðsins á Twitter-síðu sinni þegar nafn þess kom upp úr pottinum og ljóst var að dauðariðillinn var framundan, en myndbandið má sjá hér fyrir neðan.