Innherji

Hræringar á orku­­markaði hafa ekki haggað úti­­­lokunar­­stefnu LV

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Lífeyrissjóður verzlunarmanna var fyrsti lífeyrissjóðurinn á Íslandi til að innleiða útilokunarstefnu. Og hann er sá eini hingað til.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna var fyrsti lífeyrissjóðurinn á Íslandi til að innleiða útilokunarstefnu. Og hann er sá eini hingað til. Vísir/Vilhelm

Efnalagslegar afleiðingar stríðsins í Úkraínu, einkum hækkandi orkukostnaður, hafa breytt því hvernig margir alþjóðlegir stofnanafjárfestar nálgast ábyrgar fjárfestingar. Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV) telur hins vegar ekki tilefni til að endurskoða stefnu sjóðsins um útilokun á tilteknum jarðefnaeldsneytisfyrirtækjum í eignasöfnum sínum. 

„Ekki stendur til að breyta stefnu LV um útilokun í eignasöfnum hvað jarðefnaeldsneyti varðar,“ segir í svari LV við fyrirspurn Innherja.

LV greindi frá því í október á síðasta ári að sjóðurinn hefði sett 138 erlend fyrirtæki á útilokunarlista. Markmiðið er að útiloka að hluta eða fullu fjárfestingar í tiltekinni starfsemi sem samræmast ekki skilgreindum viðmiðum um ábyrgar fjárfestingar.

Lífeyrissjóðurinn útilokar þannig verðbréf úr eignasafni sínu séu þau gefin út af fyrirtæki sem framleiðir tóbak, umdeild vopn, tiltekna flokka jarðefnaeldsneytis eða sem brýtur tiltekna alþjóðasamninga.

Hækkandi orkukostnaður og áhyggjur af orkuöryggi vegna innrásar Rússa í Úkraínu hafa knúið marga stofnafjárfesta til að endurskoða stefnu sína er varðar ábyrgar fjárfestingar. Evrópskir fjárfestingasjóðir sem fjárfesta með tilliti til ESG-sjónarmiða hafa átt lítið að veði í jarðefnaeldsneytisfélögum en það virðist vera að breytast.

Samkvæmt gögnum Bank of America eiga sex prósent evrópskra ESG-sjóða hlut í jarðefnaeldsneytisfélaginu Shell samanborið við núll prósent í lok síðasta árs. Shell er á meðal þekktra fyrirtækja á útilokunarlista LV en ástæðan er þó brot á alþjóðasamningum frekar en framleiðsla á jarðefnaeldsneyti.

„Rétt er að benda á að stefnan útilokar einungis tiltekna starfsemi tengda jarðefnaeldsneyti, þ.e. námuvinnslu tengda olíusandi, olíuleirsteini og kolum til hitunar á þeim grunni að slík vinnsla mengar mun meira en hefðbundin vinnsla jarðefnaeldsneytis,“ segir í svari LV. Önnur vinnsla á jarðefnaeldsneyti er því heimiluð samkvæmt stefnu sjóðsins.

Í umfjöllun Financial Times um breytta nálgun stofnanafjárfesta er haft eftir Mark Lacey, sem stýrir orkuskiptasjóði hjá eignastýringarfyrirtækinu Schroders, að fjárfestar séu orðnir jákvæðari gagnvart jarðefnaeldsneytisfyrirtækjum vegna mikilvægi þeirra í orkuskiptum.

„Stríðið í Úkraínu hefur undirstrikað nauðsyn þess að orkuskiptin verði með skipulegum hætti. Afstaðan gagnvart orkufyrirtækjum er að verða jákvæðari, jafnvel á meðal fjárfesta sem héldu að þeir myndu aldrei taka þátt í þessum geira,“ sagði Lacey.

Ávöxtun gæti einnig verið ástæða fyrir breyttri nálgun stofnanafjárfesta. Frá áramótum hefur heimsvísitala MSCI fyrir orkufyrirtæki hækkað um 33 prósent en yfir sama tímabil hefur heimsvísitalan fyrir leiðandi ESG-fyrirtæki lækkað um 15 prósent.

„Við teljum að sumir ESG-sjóðir séu að endurskoða kostnaðinn við útilokun orkufyrirtækja í ljósi dræmrar ávöxtunar á fyrri árshelmingi,“ sagði Menko Bajaj, sérfræðingur í ESG hjá Bank of America, í samtali við Financial Times.

LV segir að útilokunarstefnan sé sett með langtímamarkmið að leiðarljósi. „Stefnan endurspeglar þá skoðun LV að ávöxtun eignasafna LV til lengri tíma verði betri með beitingu þeirra útilokana sem tilteknar eru í stefnunni. Stefnan er reglulega endurskoðuð með gagnrýnum augum líkt og aðrar stefnur sjóðsins og endurbætt þegar og ef ástæða þykir til,“ segir í svari LV.

BlackRock, stærsta eignastýringarfyrirtækis heims, er á meðal þeirra stofnanafjárfesta sem hafa endurskoðað nálgun sína á ábyrgar fjárfestingar eftir að stríðið í Úkraínu hófst. Stuðningur BlackRock við tillögur er vörðuðu umhverfislega eða félagslega þætti féll um helming á hluthafafundum í vor í samanburði við síðasta ár.

Eftir að hafa greitt atkvæði með einungis 24 prósentum tillagna er varða umhverfislega og félagslega þætti sagði eignastýringarrisinn að tillögurnar væru að verða of „fyrirskipandi.“

„Margar loftslagstengdar tillögur á hluthafafundum leituðust við að stjórna hraðanum á orkuskiptum fyrirtækja án þess að taka tillit til röskunar á fjárhagslegri frammistöðu,“ sagði í skýrslu BlackRock um framkvæmd hluthafastefnu sinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×