Stjórnendur hjá Barcelona hafa farið mikinn í sumar þar sem réttur á auglýsinga- og sjónvarpstekjum hefur verið seldur til að greiða niður skammtímaskuldir og til að mega skrá nýja leikmenn líkt og Robert Lewandowski og Franck Kessié í leikmannahóp liðsins.
Þörf er hins vegar á brottförum til að halda félaginu gangandi og vilja menn í Katalóníu losa leikmenn af launaskrá. Þar á meðal eru Hollendingurinn Frenkie de Jong, Frakkinn Samuel Umtiti og Daninn Martin Braithwaite.
Félagið hefur þegar losað sig við markvörðinn Neto og varnarmanninn Óscar Mingueza, sem fóru báðir frítt gegn því að slíta samningi án við félagið án þess að gera kröfu um að samningur þeirra yrði greiddur upp.
Hvorki Braithwaite né Umtiti hafa tekið slíku boði frá félaginu. Stjórnendur hjá Barcelona eru sagðir reiðubúnir að fara í stríð við hinn danska og skoða nú allar mögulegar löglegar leiðir til að reka hann frá félaginu án þess að þurfa að greiða samning hans upp.
Samningur hans rennur út árið 2024 en Börsungar eru sagðir halda í vonina að hann taki boðinu um að segja samningnum upp, en gerist það ekki, muni þeir rifta samningi hans einhliða og líkt og segir að ofan, leita nú leiða til að gera það á sem ódýrastan máta.